Innlent

Höfuð­paurinn úr Stóra fíkni­efna­málinu meðal sak­borninga

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Maðurinn var handtekinn að lokinni eftirför á föstudag.
Maðurinn var handtekinn að lokinni eftirför á föstudag. Vísir/Vilhelm

Höfuðpaurinn úr Stóra fíkniefnamálinu frá því um aldamót situr nú í gæsluvarðhaldi, grunaður um umfangsmikil fíkniefnabrot sem lögreglan hefur rannsakað síðustu mánuði.

RÚV greindi frá þessu í gærkvöldi. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu réðst í viðamiklar aðgerðir um helgina þar sem tíu voru handteknir og fimm úrskurðaðir í gæsluvarðhald að lokinni eftirför lögreglu á föstudag. 

Fram kom í tilkynningu frá lögreglu í gær var að um væri að ræða aðgerðir gegn framleiðslu, sölu og dreifingu fíkniefna, auk peningaþvættis en umtalsvert magn af kannabisefnum var haldlagt, eða um 40 kíló. Efnin voru framleidd hér á landi, að sögn Margeirs Sveinssonar, aðstoðaryfirlögregluþjóns miðlægrar rannsóknardeildar lögreglu.

Í frétt RÚV kemur fram að að höfuðpaurinn í málinu sé Ólafur Ágúst Hraundal, áður Ægisson, sem hlaut níu ára fangelsisdóm í Stóra fíkniefnamálinu svokallaða í júní 2000. Hann var svo aftur dæmdur í níu og hálfs árs fangelsi fyrir stórfellt fíkniefnasmygl árið 2007. 

Fram kemur að Ólafur hafi verið handtekinn á brúnni yfir Reykjanesbraut við Stekkjarbakka síðastliðinn föstudag að lokinni eftirför lögreglu. Skemmdir urðu á lögreglubíl og bíl sérsveitarinnar þegar bíl Ólafs var króaður af. 

Auk Ólafs var ábúandi skammt frá Hellu einnig í hópi handtekinna, en lögregla gerði húsleit á nokkrum stöðum, bæði í höfuðborginni og á Suðurlandi. 

Margeir Sveinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn miðlægrar rannsóknadeildar, vildi lítið tjá sig við fréttastofu um málið en gat þó staðfest að efnin sem lagt var hald á hafi verið framleidd og ræktuð hérlendis.


Tengdar fréttir

Lög­reglu­bílar skemmdir eftir eftir­för

Skemmdir urðu á sérsveitarbíl og lögreglubíl eftir eftirför við ökumann pallbíls sem lauk við brúna yfir Reykjanesbraut við Stekkjarbakka í morgun. Eftirför hófst eftir að ökumaður pallbílsins virti ekki stöðvunarskyldu og er hann grunaður um akstur undir áhrifum vímuefna. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×