Fótbolti

Ræða Zlatans inn í klefa endaði á miklum látum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Zlatan Ibrahimovic var aðalmaðurinn í fagnaðarlátum AC Milan manna enda maður með mikla reynslu af því að fagna titlum.
Zlatan Ibrahimovic var aðalmaðurinn í fagnaðarlátum AC Milan manna enda maður með mikla reynslu af því að fagna titlum. AP/Antonio Calanni

AC Milan varð ítalskur meistari um helgina í fyrsta sinn síðan 2011. Líkt og þá var Zlatan Ibrahimović forsprakki liðsins.

Zlatan náði reyndar ekki mikið að vera leiðtogi inn á vellinum á lokasprettinum í baráttunni um ítalska meistaratitilinn en hann var án efa andlegur leiðtogi liðsins utan vallar.

AC Milan tryggði sér sinn fyrsta meistaratitil í ellefu ár um helgina og inn fertugi Ibrahimović kom inn á sem varamaður síðustu átján mínúturnar í 3-0 sigri á Sassuolo.

Zlatan var að verða landsmeistari í tólfta sinn á ferlinum en hann varð tvisvar hollenskur meistari með Ajax (2002, 2004), þrisvar ítalskur meistari með Internazionale (2007, 2008, 2009), nú meistari með AC Milan í annað skiptið (2011, 2022), varð spænskur meistari með Barcelona (2010) og fjórum sinnum franskur meistari með Paris Saint-Germain (2013, 2014, 2015, 2016).

Hann vann líka ítalska titilinn tvisvar með Juventus en félagið missti þá titla í Calciopoli hneykslismálinu. Zlatan hefur því í raun fagnað fjórtán meistaratitlum á ferlinum.

Zlatan skoraði átta mörk í deildarkeppninni á þessari leiktíð en það síðasta kom 9. janúar. Hann hefur verið mikið að glíma við meiðsli síðan í febrúar.

Það breytti ekki því að leikmenn AC Milan horfa mikið til þessa reynslubolta og nú hefur ræðu Svíans inn í klefa fyrir lokaleikinn verið lekið út til fjölmiðla.

Zlatan fékk orðið í klefanum og eftir að hafa veitt sínum liðsfélögum innblástur í orði þá endaði ræða hans á miklum látum. Svona eins og er eiginlega ekki von frá neinum nema einmitt manni að nafni Zlatan Ibrahimović.

Það má sjá þessa ræðu hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×