Fótbolti

Tvö íslensk mörk þegar FCK varð danskur meistari

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Hákon Arnar kom FCK á bragðið
Hákon Arnar kom FCK á bragðið vísir/Getty

FCK tryggði sér danska meistaratitilinn í fótbolta í dag þegar lokaumferð dönsku úrvalsdeildarinnar fór fram.

Skagamennirnir Ísak Bergmann Jóhannesson og Hákon Arnar Haraldsson voru í byrjunarliði liðsins sem fékk Álaborg í heimsókn en ljóst var fyrir leik að FCK myndi duga eitt stig til að tryggja efsta sætið.

Hákon Arnar kom FCK í forystu strax á áttundu mínútu leiksins og í leikhléi var staðan orðin 2-0 fyrir FCK.

Ísak Bergmann rak svo smiðshöggið þegar hann skoraði þriðja mark FCK á 53.mínútu.

Orri Steinn Óskarsson kom inn af varamannabekknum á 72.mínútu en fleiri urðu mörkin ekki og 3-0 sigur Kaupmannahafnarliðsins staðreynd.

Fjórtándi titill FCK en auk Íslendinganna þriggja sem komu við sögu í leik dagsins er Andri Fannar Baldursson einnig á mála hjá FCK, að láni frá Bologna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×