Innlent

Gert að greiða rúm­lega 36 milljóna króna sekt vegna skatt­svika

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Dómurinn var kveðinn upp í Landsrétti síðdegis.
Dómurinn var kveðinn upp í Landsrétti síðdegis. Vísir/Vilhelm

Kona, sem sat í stjórn einkahlutafélagsins Hæ ehf., hefur verið gert að greiða rúmlega 36 milljóna króna sekt til ríkissjóðs fyrir skattalagabrot á árunum 2016 og 2017.

Konan var sýknuð af tveimur ákæruliðum, en játaði brot sín samkvæmt þriðja ákæruliðnum sem sneri að broti gegn lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda. Konan bar ábyrgð á skattskilum félagsins sem stóð ríkissjóði ekki skil á staðgreiðslu opinbera gjalda að fjárhæð um átján milljóna króna árin 2016 og 2017.

Dómurinn var kveðinn upp í Landsrétti í dag en framkvæmdastjóri Hæ ehf. sem var einnig ákærður, hafði áður verið sakfelldur fyrir þann tíma sem hann var skráður framkvæmdarstjóri félagsins, eða fram til 12. október 2017. Við þá sakfellingu var vísað til ábyrgðar hans sem skráðs framkvæmdastjóra eftir lögum um einkahlutafélög.

Varð því að taka til álita hvort að konan hafi í raun borið ábyrgð á skattaskilum einkahlutafélagsins en hún tók sæti í stjórn félagsins í október 2017. Í dómi Landsréttar var konan talin hafa verið almennur starfsmaður félagsins Hæ ehf. fyrir þann tíma sem hún tók við stjórnarsetu og var því sýknuð af brotum fyrir utan þann tíma sem hún sat í stjórn félagsins.

Samkvæmt því var konan sakfelld fyrir að hafa ekki staðið skil þau þrjú greiðslutímabil sem hún sat í stjórn að fjárhæð 18.089.213 krónur en félagið var nokkru síðar tekið til gjaldþrotaskipta.

Þá voru ágallar á þeim ákærulið er sneri að peningaþvætti taldir svo verulegir að óhjákvæmilegt var að vísa þeim ákærulið frá dómi.

Hægt er að lesa dóminn í heild sinni á vef Landsréttar.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.