Fótbolti

PSG stjarnan þarf að svara fyrir skrópið og taka af sér mynd

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Idrissa Gueye í búningi Paris Saint Germain á þessu tímabili.
Idrissa Gueye í búningi Paris Saint Germain á þessu tímabili. Getty/Marcio Machado

Senegalski landsliðsmaðurinn Idrissa Gueye þarf að útskýra fyrir franska knattspyrnusambandinu af hverju hann var ekki með í lokaleik Paris Saint-Germain á tímabilinu.

Hinn 32 ára gamli Gueye var hvergi sjáanlegur í leiknum á móti Montpellier en Parísarliðið vann leikinn 4-0. Liðið var fyrir löngu búið að tryggja sér franska titilinn en PSG endaði fimmtán stigum á undan næsta liði.

Leikmenn Paris Saint-Germain spiluðu í sérstökum regnbogabúningnum í þessum leik til stuðnings samkynhneigðum og baráttunni gegn fordómum gegn þeim og öðrum LGBTQ+ hópum.

Gueye ferðaðist með liðinu til Montpellier en knattspyrnustjórinn Mauricio Pochettino sagði að hann hefði ekki spilað af persónulegum ástæðum.

Fréttir frá Frakklandi herma að Gueye hafi neitað að spila leikinn af því að hann vilji ekki klæðast treyju með slíkum boðskap. Siðanefnd franska sambandsins hefur nú sent Gueye kröfu um að útskýra skróp sitt. Hann missti líka af samskonar leik í fyrra.

Nefndin sagði meðal annars að til að sanna að þessar sögur væru ósannar þá ætti hann að taka mynd af sér í umræddum LGBTQ+ búningi PSG.

Siðanefndin telur það vera refsivert ef að leikmaðurinn hafi ekki viljað spila í treyjunni og hjálpa samkynhneigðum í sinni baráttu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×