Innlent

Á skilorði en heldur áfram að bera sig

Bjarki Sigurðsson skrifar
Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem maðurinn sýnir börnum á sér kynfærin við æfingasvæði Ármanns og Þróttar.
Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem maðurinn sýnir börnum á sér kynfærin við æfingasvæði Ármanns og Þróttar. Vísir/Egill

Karlmaður hefur ítrekað berað sig fyrir framan börn í Laugardal og eru foreldrar orðnir langþreyttir á ástandinu. Móðir stúlku sem lenti í manninum í gær ætlar að kæra hann til lögreglu.

Maðurinn er heimilislaus og hefur stundað það síðustu ár að sýna á sér kynfærin við æfingasvæði Ármanns og Þróttar í Laugardalnum. Í samtali við fréttastofu segir móðir stúlku sem karlmaðurinn beraði sig fyrir framan í gær að maðurinn dvelji í hverfinu og komi reglulega að æfingasvæðinu.

Stúlkan lét móður sína vita beint eftir atvikið og hringdi hún á lögreglu en þegar lögregla kom á staðinn var maðurinn á bak og burt. Í færslu úr dagbók lögreglu um málið segir að tilkynnt hafi verið um „afbrigðilega hegðun“ í hverfi 105 og að málið hafi verið afgreitt á vettvangi.

Maðurinn var dæmdur í fimm mánaða skilorðsbundið fangelsi í mars á þessu ári fyrir að hrækja á lögreglumann og fyrir að bera sig og kasta af sér þvagi í viðurvist barna við æfingasvæði í Laugardalnum.

Þá var honum gert að greiða börnunum fjórum sem hann kastaði af sér þvagi fyrir framan, hverju um sig, 200 þúsund krónur.

Í samtali við DV segir Guðmundur Pétur Guðmundsson, lögreglufulltrúi á lögreglustöðinni við Hverfisgötu, að ekki sé hægt að gera neitt í málinu þar sem þeir hafi engin sönnunargögn gegn honum.

„Þetta er hegðun sem gengur ekki en við verðum alltaf að hafa sönnunargögn,“ er haft eftir Guðmundi.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.