Innlent

Sau­tján prósent aukning í til­kynningum um nauðganir

Bjarki Sigurðsson skrifar
Samkvæmt skýrslunni eiga flestar nauðganirnar sér stað um helgar og rúmur helmingur að nóttu til.
Samkvæmt skýrslunni eiga flestar nauðganirnar sér stað um helgar og rúmur helmingur að nóttu til. Vísir/Vilhelm

Fleiri tilkynningar um nauðganir annars vegar, og heimilisofbeldis og ágreiningsmál hins vegar, bárust Embætti ríkislögreglustjóra á fyrstu þremur mánuðum þessa árs en á sama tímabil í fyrra. Þetta kemur fram í skýrslu sem embættið hefur birt um heimilisofbeldi og kynferðisbrot.

Í skýrslunni segir að sögulega hafi lágt hlutfall kynbundins ofbeldis, kynferðisbrota og heimilisofbeldis verið tilkynnt til lögreglu og að ofbeldið sé oft tilkynnt löngu eftir að brotið átti sér stað. Því sé markmið stjórnvalda að fjölga tilkynningum til lögreglu um kynbundið ofbeldi samhliða því að vinna að forvörnum gegn afbrotum.

Hefur það meðal annars verið gert með vitundarvakningu á borð við „Er allt í góðu?“ og með aukinni samfélagslegri umræðu um kynbundið ofbeldi. Með því er vonast til að fleiri brot verða tilkynnt til lögreglu.

Nítján prósent aukning í tilkynningum um heimilisofbeldi

Alls bárust lögreglunni 59 tilkynningar um nauðganir fyrstu þrjá mánuði ársins sem samsvarar sautján prósent fjölgun frá síðustu þremur árum þar á undan. Samkvæmt skýrslunni eiga flestar nauðganirnar sér stað um helgar og rúmur helmingur að nóttu til.

Alls bárust 610 tilkynningar um heimilisofbeldi og ágreining milli skyldra og tengdra aðila á sama tímabili. Um er að ræða 19 prósent aukningu. Í tveimur af hverjum þremur málum er ofbeldið af hendi maka eða fyrrverandi maka.

Lágar og viðkvæmar tölur

Í um fjórðungi heimilisofbeldismála er um að ræða fjölskyldutengsl, svo sem ofbeldi á milli barna og foreldra. Slíkum málum hefur fjölgað síðustu ár, bæði þar sem foreldrar beita börn sín ofbeldi og öfugt. Í skýrslunni segir að um sé að ræða lágar tölur sem viðkvæmar eru fyrir sveiflum.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.