Fótbolti

Slæmt gengi AGF heldur á­fram

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Það gengur ekkert upp hjá Jón Degi og félögum.
Það gengur ekkert upp hjá Jón Degi og félögum. vísir/Getty

Hvorki gengur né rekur hjá AGF. Liðið tapaði 1-0 fyrir Viborg og er enn í fallhættu þó markatala liðsins virðist ætla að halda því í efstu deild. Þá tapaði Álaborg fyrir Bröndby á heimavelli.

Jón Dagur Þorsteinsson og Mikael Anderson voru báðir í byrjunarliði AGF sem lenti undir á útivelli gegn Viborg í fyrri hálfleik. Jón Dagur var tekinn af velli í hálfleik og Mikael á 52. mínútu þegar mark hafði verið dæmt af AGF.

Ekki gekk sóknarleikur AGF betur eftir að Íslendingarnir fóru af velli og fór það svo að Viborg vann 1-0 sigur.

Það þýðir að AGF getur enn fallið niður í B-deild en liðið er þremur stigum yfir ofan fallsæti þegar ein umferð er eftir. Hins vegar er markatala AGF mun betri en Vejle, sem situr sæti neðar, og því ætti AGF að halda sæti sínu þó liðið tapi síðasta leik sínum á tímabilinu.

Guðmundur Þórarinsson kom inn af bekk Álaborgar er liðið tapaði 1-3 á heimavelli fyrir Bröndby. Álaborg nældi sér í tvö rauð spjöld í leiknum. 

Bæði lið eru með 45 stig fyrir lokaumferðina og eru að berjast um 4. sæti deildarinnar en það gefur þátttöku í Sambandsdeild Evrópu á næstu leiktíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×