Jörðin byrjar að ganga á milli sólarinnar og tunglsins klukkan 2:28 aðfaranótt mánudagsins 16. maí. Tunglið verður orðið almyrkvað klukkan 3:29 og blóðrautt á lit. Almyrkvinn verður enn í gangi þegar tunglið sest undir sjóndeildarhringinn frá Reykjavík séð klukkan 4:15, að því er segir í tilkynningu frá Sævari Helga Bragasyni, ritstjóra Stjörnufræðivefsins.
Áhugasamir þurfa að gæta að því að hvorki byggingar né fjöll skyggi á útsýni þeirra til suðurs og suðsuðvesturs í nótt en tunglið er afar lágt á lofti.
Ef marka má skýjahuluspá á vefsíðu Veðurstofunnar eru mestar líkur á að myrkvinn sjáist á landinu norðanverðu og hugsanlega á hluta Vesturlands.
Tunglmyrkvar verða þegar jörðin gengur á milli tunglsins og sólarinnar. Síðast sást almyrkvi á tungli frá Íslandi 28. september árið 2015. Næst verður hægt að sjá almyrkva frá upphafi til enda héðan á gamlársdag 2028, að því er segir á Stjörnufræðivefnum.