Innlent

Almyrkvi á tungli sjáanlegur á Íslandi í nótt

Kjartan Kjartansson skrifar
Samsett mynd af almyrkva á tungli.
Samsett mynd af almyrkva á tungli. Sævar Helgi Bragason

Íslendingar geta barið almyrka á tungli augum ef veður lofar í nótt. Myrkvinn hefst um klukkan hálf þrjú í nótt og verður í hámarki um klukkustund síðar.

Jörðin byrjar að ganga á milli sólarinnar og tunglsins klukkan 2:28 aðfaranótt mánudagsins 16. maí. Tunglið verður orðið almyrkvað klukkan 3:29 og blóðrautt á lit. Almyrkvinn verður enn í gangi þegar tunglið sest undir sjóndeildarhringinn frá Reykjavík séð klukkan 4:15, að því er segir í tilkynningu frá Sævari Helga Bragasyni, ritstjóra Stjörnufræðivefsins.

Áhugasamir þurfa að gæta að því að hvorki byggingar né fjöll skyggi á útsýni þeirra til suðurs og suðsuðvesturs í nótt en tunglið er afar lágt á lofti.

Ef marka má skýjahuluspá á vefsíðu Veðurstofunnar eru mestar líkur á að myrkvinn sjáist á landinu norðanverðu og hugsanlega á hluta Vesturlands.

Tunglmyrkvar verða þegar jörðin gengur á milli tunglsins og sólarinnar. Síðast sást almyrkvi á tungli frá Íslandi 28. september árið 2015. Næst verður hægt að sjá almyrkva frá upphafi til enda héðan á gamlársdag 2028, að því er segir á Stjörnufræðivefnum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×