Yorke tekur við Macarthur FC sem leikur í efstu deild í Ástralíu. Yorke þekkir ágætlega til í Ástralíu, en hann lék á sínum tíma eitt tímabil með Sydney FC þar sem hann skoraði sjö mörk í 22 leikjum.
Þekktastur er Yorke þó líklega fyrir tíma sinn hjá Manchester United. Þar lék hann á árunum 1998 til 2002 og var meðal annars hluti af liðinu sem vann þrennuna frægu árið 1999. Þá lék hann einnig með liðum á borð við Aston Villa, Blackburn Rovers, Birmingham og Sunderland. Alls skoraði Yorke 123 mörk í ensku úrvalsdeildinni sem gerir hann að átjánda markahæsta leikmanni keppninnar frá upphafi.
We are excited to confirm our new head coach is Dwight Yorke! 👏#WeAreTheBulls pic.twitter.com/TvgO89bhge
— Macarthur FC (@mfcbulls) May 15, 2022
Þessi fimmtugi fyrrum markahrókur skrifaði undir tveggja ára samning við Macarthur FC. Liðið hafnaði í sjöunda sæti deildarinnar á seinasta tímabili og rétt missti af sæti í úrslitakeppninni.
„Ég er gríðarlega spenntur fyrir því sem verður mitt fyrsta aðalþjálfarastarf í fullu starfi,“ sagði Yorke þegar hann var kynntur sem þjálfari liðsins. „Eftir að hafa spilað í þessari deild hef ég fylgst vel með þróun hennar og geri mér grein fyrir kröfunum sem gerðar eru.“