„Það er kokteill af alls konar og auðvitað er maður hundfúll því maður vill að plönin haldi,“ segir Eva. Eurovision hafi valdið því að fólk hafi mætt fyrr á kjörstað en oft áður og fyrri skammturinn af atkvæðum sé því afar stór.
„Við erum í fyrstu umferð að telja 37 þúsund atkvæði og svo er nýtt fyrirkomulag að tefja okkar frábæra talningarfólk,“ segir Eva. Þar vísar hún til nýrrar reglugerðar sem kveður á um að talningarfólk eigi að merkja hvern atkvæðabunka sem það telji.
Eva vonar að talningin muni ganga betur eftir að fyrstu tölur verði komnar í hús. Hún geti þó engu lofað.
„Ég vona það út af því að þetta er stór bunki sem við erum að koma með í fyrstu tölunum.“
Eva segist ekki treysta sér til þess að leggja fyllilega mat á það á þessari stundu hvort nýju reglurnar þjóni tilgangi sínum eða séu fyrst og fremst að valda óþarfa töfum á talningunni.