Fótbolti

„Leikmaður Keflavíkur brotlegur í aðdragandanum“

Atli Arason skrifar
Brynjar Hlöðversson og félagar í Leikni hafa byrjað tímabilið í Bestu deildinni illa.
Brynjar Hlöðversson og félagar í Leikni hafa byrjað tímabilið í Bestu deildinni illa. vísir/vilhelm

Brynjar Hlöðversson, leikmaður Leiknis, var langt því frá að vera ánægður eftir 3-0 tap gegn Keflavík í fimmtu umferð Bestu deildarinnar í kvöld.

„Fyrstu viðbrögð eru reiði, pirringur og bara almennt mjög sár út í frammistöðu okkar í kvöld. Við hefðum átt að sýna einhvern karakter í þessum leik, við vorum eftir á í fyrsta bolta, öðrum bolta, tæklingum og fleira. Ég er mjög svekktur út í liðið,“ sagði Brynjar Hlöðversson, leikmaður Leiknis, í viðtali við Vísi eftir leik.

Keflavík fékk fyrstu tvö mörk leiksins á silfurfati frá Leikni. Brynjari fannst fyrra markið þó ekki eiga að standa þegar Bjarki Aðalsteinsson og Viktor Freyr Sigurðsson, leikmenn Leiknis lenda saman inn í vítateig gestanna.

„Það var leikmaður Keflavíkur brotlegur í aðdragandanum. Mér fannst hann brjóta á Bjarka og það ætti að vera aukaspyrna en kannski sá ég þetta ekki nógu vel. Í öðru markinu kixa ég boltann, ég er með sólina í augunum en þetta var alltof mikill klaufagangur hjá mér."

Veðrið spilaði sitt hlutverk í leiknum í kvöld eins og svo oft áður í Keflavík. Vindurinn stóð á annað markið allan leikinn og í síðari hálfleik var sólin komin lágt á loft sem augljóslega truflaði leikmenn Leiknis eitthvað.

„Ég veit ekki hvort við eigum að reyna spila minni fótbolta fyrir vikið. Þetta var ekkert skemmtilegur fótboltaleikur fyrir áhorfendur en svona er boltinn stundum á Íslandi. Veðrið getur spilað inn í en við þurfum að geta spilað í svona aðstöðu,“ svaraði Brynjar aðspurður út í aðstöðunnar í Keflavík í kvöld.

Leikmenn Leiknis hafa enn ekki skorað mark í deildinni eftir fimm umferðir. Eina mark liðsins til þessa er sjálfsmark Eiðs Arons, leikmanns ÍBV. Næsti leikur Leiknis er gegn Fram, sem er leikur sem Breiðhyltingar verða að sækja sigur í til að lyfta sér úr kjallara Bestu deildarinnar. Brynjar kallar eftir því að hann og liðsfélagar sínir mæti betur til leiks á móti Fram á mánudaginn.

„Við þurfum bara að byrja á því að mæta til leiks. Við þurfum að mæta klárir frá fyrstu mínútu og geta gefið allt í leikinn,“ sagði Brynjar Hlöðversson, leikmaður Leiknis.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.