„Við erum bara að auglýsa eftir honum því okkur langar að hitta hann. Hann er greinilega mjög reiður út í okkur og mig langar að vita af hverju hann er að gera þetta,“ segir Sæunn Ósk Unnsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Hopp Reykjavík, í samtali við Vísi.

Skemmdarverkin hafi staðið yfir í rúmt ár og dæmi um að tíu slík rafhlaupahjól finnist á sólarhring.
„Ég er bara hrædd um að þetta eigi eftir að valda einhverjum skaða. Að einhver skanni hjólið, taki ekki eftir þessu í myrkri og byrji svo að reyna að hjóla af stað. Ég veit ekki hvort viðkomandi gæti hreinlega bara slasað sig af því að bremsan er í rauninni bensluföst,“ bætir hún við.
Noti sífellt þykkari bensli
Sæunn segir skemmdarverkin valda ýmsum ama fyrir starfsfólk Hopps sem þurfi að elta uppi hlaupahjólin sem búið sé að eiga við og klippa á dragböndin.
„Hann er alltaf að setja þykkari og þykkari bensli þannig að við þurfum alltaf að kaupa nýjar og nýjar klippur.“
Sæunn segir að fyrst núna hafi hún fengið myndir af einstaklingi stunda þennan verknað og því ákveðið að auglýsa eftir honum. Umræddur einstaklingur var á reiðhjóli og er framkvæmdastjórinn því viss um að fleira sameini þau en sundri.

„Ég vil bara hitta kauða. Hann er hjólreiðamaður þannig að við erum að bera út sama boðskapinn. Við viljum ferðast um á umhverfisvænan hátt og hvort við getum ekki eitthvað unnið saman að breyttri og bættri borg frekar en að hann sé að valda svona skemmdarverkum á skútunum okkar.“
Sæunn bætir við að Hopp Reykjavík hafi ekki áhuga á því að leita til lögreglu vegna málsins og vilji frekar leysa málið í sátt.