Innlent

Kosninga­borðar í Kópa­vogi teknir niður

Jakob Bjarnar skrifar
Þessir kosningaborðar teljast brjóta gegn reglum um auglýsingaskilti í Kópavogi og voru því teknir niður í morgun af starfsmönnum bæjarins.
Þessir kosningaborðar teljast brjóta gegn reglum um auglýsingaskilti í Kópavogi og voru því teknir niður í morgun af starfsmönnum bæjarins. aðsend

Hiti er að færast í leikinn vegna sveitarstjórnarkosninga sem verða haldnar um næstu helgi. Bæjaryfirvöld í Kópavogi hafa þurft að grípa til þess að taka niður áberandi kosningaborða í bæjarlandinu.

Framboðið Vinir Kópavogs eru ósáttir en á horni Digranesvegar og Grænutungu hafði verið komið upp áberandi kosningaborðum sem svo starfsmenn bæjarins tóku niður í morgun. Stuðningsmenn framboðsins eru ósáttir og segja að um sé að ræða einkalóð.

„Er bærinn kominn í pólitík? Menn í gulum vestum ganga um bæinn og taka niður mótmælaborða íbúa af lóðum þeirra,“ segir á Facebook-síðu framboðsins. Og eru þar birtar fyrir/eftir myndir þaðan sem borðarnir höfðu verið fjarlægðir.

Horn Digranesvegar og Grænutungu eftir að starfsmenn bæjarins höfðu fjarlægt borðana.aðsend

Sigríður Björg Tómasdóttir upplýsingafulltrúi Kópavogsbæjar segir að Vinir Kópavogs séu ekki þeir einu sem hafa þurft að sæta þessu en Framsóknarmenn settu upp skilti hjá Elkó sem var fjarlægt. 

Hún segir að um þetta gildi reglur og öllum ábyrgðarmönnum allra framboða til sveitarstjórnar í Kópavogi hafi fengið leiðbeiningar um uppsetningu slíkra auglýsingaskilta. 

Þar kemur fram að sækja þurfi um leyfi vegna uppsetningar auglýsingaskilta á almannafæri frá bænum. Þetta sé samkvæmt lögreglusamþykkt fyrir Kópavogsbæ og þar megi finna skilgreiningu á því hvað átt er við með hugtakinu „almannafæri“:

Almannafæri á við götur, vegi, gangstéttir, gangstíga, svæði ætluð til almenningsnota og staði sem opnir eru almenningi, svo sem íþróttasvæði, kvikmyndahús, leikhús, samkomuhús, söfn, veitingastaði, verslanir, leiktækjastaði, bifreiðastöðvar, biðskýli og söluturna innan Kópavogs.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×