Innlent

Sögulegt ávarp í þingsal

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
Birgir Ármannsson segir að ávarp Úkraínuforseta á Alþingi í dag sé einstæður viðburður í sögu þingsins.
Birgir Ármannsson segir að ávarp Úkraínuforseta á Alþingi í dag sé einstæður viðburður í sögu þingsins. Vísir

Úkraínuforseti ávarpar Alþingi í dag í gegnum fjarfundarbúnað í sérstakri athöfn. Þetta er í fyrsta skipti sem slík athöfn fer fram í þingsal. Forseti Alþingis segir um sögulegan viðburð að ræða.

Volodymyr Selenskí, forseti Úkraínu, ávarpar Alþingi klukkan tvö í dag en þetta er í tuttugasta og sjöunda skipti sem forsetinn ávarpar þjóðþing síðan innrásin í Úkraínu hófst. 

Birgir Ármannsson forseti Alþingis segir nokkurn aðdraganda að málinu.

„Þetta hefur verið rætt milli ríkjanna um nokkra vikna skeið en það kom ekki fram fyrr en í þessari viku að þetta gæti orðið á þessum tíma,“ segir Birgir.

Hann segir um sérstakan viðburð að ræða í þinghúsinu sem muni taka um hálftíma.

„Ég mun bjóða fólk velkomið og forseti Íslands segir svo nokkur orð. Að því loknu munum við í gegnum fjarfundarbúnað geta séð og heyrt Selenskí flytja ávarp sitt.  Það verður túlkað,“ segir hann.

Þá muni forsætisráðherra þakka Úkraínuforseta fyrir ávarpið að því loknu. Hann segir að viðburðurinn í þingsal sé aðeins fyrir þingmenn en honum verði streymt í beinni útsendingu. Meira verði lagt í útsendinguna en venjulega.

„Þetta er sögulegt í tvennum skilningi. Annars vegar eru ekki fordæmi fyrir því að erlendur þjóðhöfðingi ávarpi Alþingismenn og við erum líka í fyrsta skipti að nota fjarfundarbúnað í ávarpi í þingsal. Og eins er óvenjulegt er að fundurinn muni að stórum hluta fara fram á erlendum tungumálum. Þetta er spennandi og óvenjulegt þó tilefnið sé dapurlegt,“ segir Birgir að lokum.

Ávarpið verður í beinni útsendingu á Vísi og Stöð 2 Vísi.


Tengdar fréttir

Selenskí ávarpar íslensku þjóðina á morgun

Volódímír Selenskí, forseti Úkraínu, ávarpar alþingismenn og íslensku þjóðina á morgun klukkan 14 í gegnum fjarfundabúnað við sérstaka athöfn í þingsal Alþingis. Hægt verður að fylgjast með ávarpinu í streymi á Vísi og sömuleiðis á sjónvarpsrás og vef Alþingis. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×