Innlent

Skemmti­­ferða­­skipin lygi­­lega fljót að taka við sér

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Á milli 150 og 160 skemmtiferðaskip til Ísafjarðar. Og það er metár.
Á milli 150 og 160 skemmtiferðaskip til Ísafjarðar. Og það er metár. vísir

Ísa­fjarðar­bær stendur nú í framkvæmd fyrir milljarð ­króna til að stækka höfn sína til þess að geta tekið á móti enn fleiri skemmti­ferða­skipum. Árið 2022 verður nefni­lega met­ár þegar kemur að komu skemmti­ferða­skipa til Ísa­fjarðar.

„Al­gjört met­ár. Síðasta heila árið sem við vorum að taka á móti skemmti­ferða­skipum var 2019. Þá komu 126 skip,“ segir Guð­mundur M. Kristjáns­son, hafnar­stjóri Ísa­fjarðar­bæjar.

Þannig virðist ljóst að ferða­þjónustan ætli að verða lygi­lega fljót að taka við sér eftir tvö erfið ár í heims­far­aldri. Skipin verða nefni­lega miklu fleiri í ár.

Guðmundur M. Kristjánsson, hafnarstjóri á Ísafirði.vísir/óttar

„Upp­haf­lega var bókunar­staðan 160 skip. Það hefur nú eitt­hvað kvarnast úr því eins og gerist nú alltaf á hverju ári. En við erum samt með milli 150 og 160 skemmti­ferða­skip stað­fest hingað til Ísa­fjarðar núna í sumar,“ segir Guð­mundur.

Hafa þurft að vísa skipum frá

Svo fljótur er skemmti­ferða­skipa­bransinn að taka við sér að Ísa­fjarðar­höfn getur hrein­lega ekki tekið á móti öllum sem vilja.

„Við erum inn í fram­tíðina nú þegar byrjuð að vísa skipum frá eða biðja skipa­fé­lögin að taka til aðra daga þar sem þetta er allt að fyllast,“ segir Guð­mundur.

Við ræddum við hann í Kvöld­fréttum Stöðvar 2 um helgina og hittum hann við hafnar­svæðið þar sem nú standa yfir fram­kvæmdir til að stækka höfnina:

Fram­kvæmdirnar kosta einn milljarð króna.

„Já, við erum núna í stór­fram­kvæmdum. Við erum að fram­kvæma á höfninni fyrir milljarð í þessari ein­stöku fram­kvæmd sem er lenging á Sunda­bakka okkar aðal við­legu­kannti fyrir frakt­skip og skemmti­ferða­skip,“ segir Guð­mundur.

Vinstra megin við Sunda­bakka sést hvar verið er að fylla í hafnar­svæðið til að stækka höfnina. Einnig verðir svæðið fyrir framan Sunda­bakka dýpkað til muna.ísafjarðarbær

Á myndinni hér að ofan sést Sunda­bakki þar sem tekið er á móti skemmti­ferða­skipunum neðst á myndinni. Og nú er verið að fylla í svæðið sem sést til vinstri til að stækka höfnina.

Það mun auka getu bæjarins til að geta tekið á móti skemmti­ferða­skipum til muna.

„Við erum að stefna að því að geta verið með tvö mjög stór skemmti­ferða­skip við bryggju á sama tíma sem að í beinu fram­haldi eykur tekjurnar og gerir lífið fal­legra,“ segir Guð­mundur.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×