Fótbolti

Gáfu Real Madrid bara eitt prósent líkur á 89. mínútu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Karim Benzema og liðfélagar hans í Real Madrid fagna hér sigurmarki hans á móti Manchester City á Santiago Bernabeu í gær.
Karim Benzema og liðfélagar hans í Real Madrid fagna hér sigurmarki hans á móti Manchester City á Santiago Bernabeu í gær. AP/Manu Fernandez

Þau hafa verið nokkrir æsispennandi og ógleymanlegir kaflar í Meistaradeildarævintýri Real Madrid liðsins á þessari leiktíð og einn af þeim bestu var skrifaður á Santiago Bernabeu í gær.

Real Madrid liðið lenti 1-0 undir á heimavelli sínum á móti gríðarlega sterku liði Manchester City eftir að hafa tapað fyrri leiknum 4-3 í Manchester.

Staðan var enn 1-0 á 89. mínútu í leiknum í gær og í raun ekkert í spilunum að Real Madrid menn væru að fara að gera eitthvað að viti á lokakaflanum.

Eins og vaninn er í heimi lifandi veðmála þá eru stanslaust reiknaðar sigurlíkur liðanna í leikjum. Á 89. mínútu gáfu menn Real Madrid aðeins eitt prósent líkur.

Þetta eitt prósent var nóg fyrir hina ástríðufullu leikmenn Real Madrid því þegar þeir vöknuðu þá vaknaði allur Bernabeu með þeim og úr varð rosalegur lokakafli.

Carlo Ancelotti átti líka ás upp í erminni því hann hafði tekið þýska stjörnumiðjumanninn Toni Kroos og sent Rodrygo inn á völlinn.

Rodrygo átti eftir að skora tvisvar með mínútu millibili og tryggja Real Madrid framlengingu.

Heitasti framherji útsláttarkeppninnar, Karim Benzema, gerði síðan út um leikinn með því að fiska vítaspyrnu í framlengingunni og skora að öryggi úr henni. Þetta var hans tíunda mark Frakkans í útsláttarkeppninni þar sem Real hefur nú slegið út Paris Saint-Germain, Chelsea og Manchester City.

Nú bíður Liverpool í úrslitaleiknum í París og þá kemur í ljós hvort þetta mikla ævintýri endar vel eða illa.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.