Fótbolti

Segir að Van Dijk sé besti varnarmaður allra tíma

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Virgil van Dijk fagnar eftir sigurinn á Villarreal.
Virgil van Dijk fagnar eftir sigurinn á Villarreal. getty/Visionhaus

Michael Owen sparaði ekki stóru orðin þegar hann ræddi um Virgil van Dijk fyrir leik Villarreal og Liverpool í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu í gær.

Í upphitun BT Sport fyrir leikinn á El Madrigal í gær sagði Rio Ferdinand að Van Dijk væri klárlega besti varnarmaður heims um þessar mundir. Owen bætti um betur.

„Ég myndi ganga lengra. Ég held að hann sé besti varnarmaður allra tíma,“ sagði Owen sem var beðinn um rökstyðja mál sitt, af hverju honum fyndist Van Dijk vera betri en varnarmenn á borð við Ferdinand.

„Hann skoraði kannski fleiri mörk, ekki mikið fleiri, en við erum að tala um þann besta hérna. Eins og ég hef sagt er Rio besti miðvörður sem ég spilaði með. En með Van Dijk, sem framherji horfirðu á hann og hugsar hvað get ég gert? Hann er stærri en allir, sneggri en allir, sterkari en allir, frábær með boltann og skorar mörk. Ég hef aldrei séð annað eins.“

Owen segir að það eina sem vinni gegn Van Dijk sé titlafjöldinn. „Leikmenn eins og Rio, [Paolo] Maldini, [Franco] Baresi og leikmenn sem eru álitnir þeir bestu hafa allir unnið marga titla. En ég horfi á hann og hugsa hvernig er hægt að vera betri en þetta?“

Van Dijk og félagar í Liverpool voru 2-0 undir í hálfleik gegn Villarreal en komu sterkir til baka, unnu 2-3 sigur og einvígið, 5-2 samanlagt. 

Það kemur í ljós í kvöld hvort Liverpool mætir Real Madrid eða Manchester City í úrslitaleik Meistaradeildarinnar í París 28. maí næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×