Fótbolti

Úrvalsdeildarfélögin hafa áhyggjur af stækkun Meistaradeildarinnar

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Félög í ensku úrvalsdeildinni hafa áhyggjur af því aukna leikjaálagi sem fylgir fjölgun liða í Meistaradeildinni.
Félög í ensku úrvalsdeildinni hafa áhyggjur af því aukna leikjaálagi sem fylgir fjölgun liða í Meistaradeildinni. MB Media/Getty Images

Félög í ensku úrvalsdeildinni hafa áhyggjur af stækkun Meistaradeildar Evrópu og því aukna leikjaálagi sem henni fylgir.

Þetta kemur fram á vef Sky Sports, en hingað til hafa deildirnar átt í samkomulagi við UEFA, knattspyrnusamband Evrópu, sem segir til um að leikir í Meistaradeildinni lendi ekki á sömu dögum og leikir í ensku úrvalsdeildinni. Þannig hafa helgarnar verið verndaðar frá leikjum í Meistaradeildinni.

Samkvæmt heimildum Sky Sports hafa félög í ensku úrvalsdeildinni þó miklar áhyggjur af því að stækkun Meistaradeildarinnar muni verða til þess að árekstrar verði í leikjaniðurröðun. UEFA hefur nú þegar samþykkt að 36 lið muni taka þátt í Meistaradeildinni frá árinu 2024 í stað 32 eins og skipulagið er nú.

Allt að 80 prósent fleiri leikir

Hugmyndir UEFA um stækkun Meistaradeildarinnar fela í sér að hvert lið muni spila tíu leiki í riðlakeppninni í stað sex eins og fyrirkomulagið er núna. Heimildir Sky Sports herma þó að enska úrvalsdeildin sé að vinna í því að leikirnir í riðlakeppninni verði aðeins átta á hvert lið í stað tíu.

Ef við skoðum fyrirkomulag Meistaradeildarinnar eins og það er nú þá eru 125 leikir í heildina á hverju tímabili.

Ef enska úrvalsdeildin fær sínu framgengt og hvert lið leikur átta leiki í riðlakeppninni þá hækkar sú tala í 189 leiki í heildina sem gerir rúmlega 50 prósent aukningu.

Ef UEFA fær hins vegar sínu framgengt og hvert lið leikur tíu leiki í riðlakeppninni þá verða 225 leikir í heildina á hverju tímabili í Meistaradeild Evrópu, en það er 80 prósent aukning frá núverandi fyrirkomulagi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×