Fótbolti

„Klárlega tvö lið í undanúrslitunum sem allir veðja á að komist ekki áfram“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Carlo Ancelotti, knattspyrnustjóri Real Madrid, gerir sér fulla grein fyrir því að liðið á erfitt verkefni fyrir höndum í Meistaradeild Evrópu í kvöld.
Carlo Ancelotti, knattspyrnustjóri Real Madrid, gerir sér fulla grein fyrir því að liðið á erfitt verkefni fyrir höndum í Meistaradeild Evrópu í kvöld. Ion Alcoba/Quality Sport Images/Getty Images

Carlo Ancelotti og lærisveinar hans í Real Madrid heimsækja Englandsmeistara Manchester City í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu í fótbolta í kvöld. Ancelotti viðurkennir að hans menn séu það lið sem þykir ólíklegra til að vinna einvígið, en að saga félagsins í keppninni muni hjálpa liðinu.

„Það eru klárlega tvö lið í undanúrslitunum sem allir eru á að komist ekki áfram. Það erum við og Villareal,“ sagði Ancelotti á blaðamannafundi í dag, en Villareal heimsækir Liverpool annað kvöld.

„Ég hef alltaf sagt að Real Madrid mun alltaf mæta til að keppa, sama hvað og sama á móti hverjum það er.“

„Saga félagsins í þessari keppni - við höfum unnið Meistaradeildina 13 sinnum - gerir leikmönnunum auðveldara fyrir af því að þeir finna fyrir því hversu þungur, á jákvæðan hátt, Real Madrid búningurinn er í Meistaradeildarleik.“

„Þeim líður eins og þeir geti allt, eins og þeir gerðu þegar við unnum okkur til baka á móti PSG og Chelsea. Saga Real Madrid skiptir okkur miklu máli. Meira en fyrir andstæðingana,“ sagði Ancelotti að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×