Erlent

Mikil­­vægustu kosningar fyrir Evrópu­­sam­bandið í langan tíma

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Kjörstaðir í Frakklandi loka klukkan sex í kvöld að íslenskum tíma og má búast við fyrstu tölum fljótlega eftir það.
Kjörstaðir í Frakklandi loka klukkan sex í kvöld að íslenskum tíma og má búast við fyrstu tölum fljótlega eftir það. getty/hong wu

Emmanuel Macron Frakk­lands­­for­­seti freistar þess í dag að ná endur­­­kjöri en val Frakka stendur á milli hans og hægri mannsins Marine Le Pen. Allar skoðana­kannanir síðustu daga benda til sigurs Macrons. Prófessor í stjórn­­mála­­fræði segir kosningarnar geta skipt sköpum fyrir fram­­tíð Evrópu­­sam­bandsins.

Macron og Le Pen tókust einnig á í síðustu for­seta­kosningum árið 2017 en þar hlaut Macron 66 prósent at­kvæða.

Allar skoðana­kannanir síðustu daga sýna for­ystu Macrons en hún er mis­mikil eftir skoðana­könnunum - hann mælist allt frá 6 til 15 prósentu­stigum á undan Le Pen.

Ei­ríkur Berg­mann, prófessor í stjórn­mála­fræði, segir kosningarnar í ár afar sér­stakar - flokkarnir tveir sem áður voru stærstir hafi misst allt fylgi.

„Þetta eru auð­vitað feiki­lega ó­venju­legar kosningar þó að þetta sé endur­tekning frá því fyrir fimm árum síðan. En að sú staða sé uppi að stóru flokkarnir tveir, sem einu sinni voru stórir en eru nánast horfnir í dag, að þeir skuli vera fjar­verandi gerir þetta auð­vitað mjög sér­stakt og skrýtið,“ segir Ei­ríkur.

Því sé mun erfiðara að spá fyrir um fylgis­þróun og að hve miklu leyti skoðana­kannanir endur­spegli fylgið sem fram­bjóð­endurnir munu fá á kjör­dag.

Eiríkur Bergmann, prófessor í stjórnmálafræði, segir að nái Le Pen kjöri hefði það ófyrirsjáanlegar afleiðingar fyrir framtíð Evrópusambandsins.vísir/vilhelm

„Þegar að það eru tveir utan­garðs­menn, maður verður eigin­lega að fella Macron undir það líka, að þá er bara erfiðara að segja fyrir um nokkra niður­stöðu og kannanir verða ekki eins öruggar eins og þegar um svona rót­grónari flokka er að ræða,“ segir Ei­ríkur.

Myndi valda stærsta skjálfta í Brussel í langan tíma

Macron er miðju­maður en Le Pen skil­greinist sem þjóð­ernis­sinnaður hægri­maður. Ei­ríkur gerir ekki lítið úr mikil­vægi kosninganna:

„Þetta eru mikil­vægustu kosningar sem að Evrópu­sam­bandið hefur staðið frammi fyrir í mjög langan tíma.“

Le Pen hefur þó fallið frá fyrra á­herslu­máli sínu um að Frakk­land gangi hrein­lega úr Evrópu­sam­bandinu.

„Þrátt fyrir það þá talar hún samt fyrir því­líkri um­pólun á banda­laginu að það jafn­gildir nánast því sama,“ segir Ei­ríkur.

Hún vilji breyta sam­bandinu í hefð­bundið milli­ríkja­banda­lag, draga úr yfir­þjóð­legu sam­starfi og vinsa ofan af peninga­mála­sam­starfi með Evruna.

Þetta eru auð­vitað allt aðrar á­herslur en Macron býður upp á sem hefur frekar vilja styrkja sam­bandið ef eitt­hvað er.

„Kæmist Le Pen til valda í öðru af tveimur for­ystu­ríkjum banda­lagsins þá myndi það valda jarð­skjálfta af stærðar­gráðu í Brussel sem við höfum ein­fald­lega ekki séð í langan tíma. Og það í banda­lagi sem er nú mjög plagað af skjálfta­virkni svona yfir­leitt,“ segir Ei­ríkur.

Mark­mið Le Pen ekki endi­lega að sigra

Hann segir að fyrir Pen snúist kosningarnar þó ekki endi­lega um for­seta­em­bættið sjálft.

„Ég held að stað­reynd málsins sé sú að Marine Le Pen hafi aldrei búist við því að geta sigrað for­seta­kjörið. Hennar mark­mið er í rauninni annað en það. Það er að róta svona að­eins í stjórn­málum í Frakk­landi, koma sér í á­kjósan­lega stöðu því að svo eru þing­kosningar fram undan í júní. Þannig að niður­staðan í dag gefur mikil fyrir­heit um hvernig þær kosningar eigi eftir að fara,“ segir Ei­ríkur.

Kjör­stöðum í Frakk­landi verður lokað klukkan sex síð­degis að ís­lenskum tíma og reiknað er með að fyrstu tölur, sem iðu­lega eru lýsandi fyrir loka­tölur, birtist mjög fljót­lega eftir lokun.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×