Innlent

Rekstrar­niður­staða Reykja­víkur­borgar já­kvæð um rúma 23 milljarða

Bjarki Sigurðsson skrifar
Ráðhús Reykjavíkur.
Ráðhús Reykjavíkur. Vísir/Vilhelm

Rekstrarniðurstaða A- og B- hluta Reykjavíkurborgar var jákvæð um 23,4 milljarða króna á árinu 2021 og var niðurstaða beggja rekstrarhluta borgarinnar töluvert betri en áætlanir gerðu ráð fyrir.

Í tilkynningu frá Reykjavíkurborg segir að betri niðurstaða skýrist einkum af matsbreytingu fjárfestingaeigna hjá Félagsbústöðum og áhrifum af gangvirðisbreytingum innbyggðra afleiða í raforkusölusamningum Orkuveitu Reykjavíkur.

Samtals námu rekstrartekjur A- og B-hluta um 200 milljarða á árinu eða um sjö milljarða yfir áætlun. Rekstrarniðurstaða fyrir fjármagnsliði var jákvæð um 20 milljarðar króna, sem er 12 milljarða króna betri niðurstaða en áætlun gerði ráð fyrir.

Betri ávöxtun og hærri staðgreiðsla útsvars

Rekstur Reykjavíkurborgar skiptist í A-hluta og B-hluta. Til A-hluta telst starfsemi sem að hluta eða öllu leyti er fjármögnuð með skatttekjum. Um er að ræða Aðalsjóð, sem heldur utan um rekstur fagsviða og Eignasjóð.

Til B-hluta teljast fjárhagslega sjálfstæð fyrirtæki sem að hálfu eða meirihluta eru í eigu borgarinnar, en rekstur þeirra er að stofni til fjármagnaður með þjónustutekjum.

Betri afkoma A-hluta skýrist einkum af hærri staðgreiðslu útsvars og betri ávöxtunar eigna lífeyrissjóðs LsRb en á móti kom aukinn launakostnaður sem að hluta má rekja til Covid aðgerða í leikskólum, grunnskólum og velferðarþjónustu, innleiðingar á betri vinnutíma auk stuðnings- og stoðþjónustu.

Ábyrg fjármálastjórn og góð frammistaða

„Niðurstaðan er mun sterkari en áætlanir gerðu ráð fyrir, þrátt fyrir mikinn auka kostnað vegna Covid, sérstaklega í skólum og velferðarþjónustunni. Þar sýndi starfsfólk og stjórnendur ótrúlega útsjónarsemi og seiglu og ég er sérstaklega stoltur af því hvernig þessi tvö ár gengu í þjónustu við borgarbúa,“ segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.

Hann segir að ársreikningurinn staðfesti ábyrga fjármálastjórn, öflug og rétt viðbrögð við erfiðum aðstæðum, góða frammistöðu starfsfólks og stjórnenda, og sterka stöðu borgarsjóðs og samstæðunnar í heild.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×