Innlent

Höfðu afskipti af piltinum í annað sinn

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Sérsveit ríkislögreglustjóra hafði haft afskipti af piltinum í strætisvagni í tengslum við leitina að Gabríel í gær.
Sérsveit ríkislögreglustjóra hafði haft afskipti af piltinum í strætisvagni í tengslum við leitina að Gabríel í gær. Vísir/Vilhelm

Lögregla hafði í morgun í annað sinn afskipti af unglingspilti í tengslum við leitina að hinum tvítuga Gabríel Douane Boama, sem slapp úr haldi lögreglu í fyrradag, að sögn móður hans. Drengurinn sem lögregla hafði afskipti af er alls ótengdur málinu en ríkslögreglustjóri harmaði að drengurinn hefði dregist inn í málið í gær.

Gabríel slapp úr haldi lögreglu í Héraðsdómi Reykjavíkur í fyrradag þegar mál hans var þar til meðferðar. Kristján Helgi Þráinsson aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu segir að staðan á málinu sé í raun óbreytt frá því í gær. Ekki sé búið að finna Gabríel en lögregla elti vísbendingar sem berist. Þar sé einkum um að ræða borgara sem hringi og telji sig hafa séð hann. Tilkynningar séu fjölmargar, þar af allt að fimmtán í morgun.

Lögregla fylgdi eftir ábendingu í bakaríi

Mikil reiði braust út á samfélagsmiðlum í gær eftir að greint var frá því að sérsveit ríkislögreglustjóra hefði haft afskipti af unglingspilti í strætisvagni í tengslum við leitina að Gabríel. Drengurinn og Gabríel eru báðir dökkir á hörund og margir, þar á meðal þingmenn og landsfrægur tónlistarmaður, hafa velt því upp að atvikið, sem og athugasemdir netverja um málið, byggi á kynþáttafordómum. 

Samkvæmt upplýsingum frá móður piltsins hafði lögregla afskipti af honum í annað sinn í  morgun, í þetta sinn í bakaríi. Lögregla vildi ekki tjá sig um atvikið þegar fréttastofa leitaði eftir viðbrögðum. Öllum vísbendingum sem komi á borð lögreglu vegna leitarinnar sé fylgt eftir, þyki tilefni til.

Ríkislögreglustjóri sendi frá sér yfirlýsingu í gærkvöldi þar sem fram kom að embættinu þætti leitt að drengur sem hafi ekkert unnið sér til sakar hefði dregist inn í aðgerðir lögreglu. Embættið hvetur fólk til varkárni í samskiptum um málið og önnur sem tengist minnihlutahópum. Fordómafullar athugasemdir um málið verði áfram fjarlægðar af miðlum lögreglu og lokað verði fyrir frekari athugasemdir.

Lögregla á höfuðborgarsvæðinu hefur ekki viljað veita viðtöl vegna málsins í dag. Þá vísar ríkislögreglustjóri á yfirlýsingu sína frá í gærkvöldi.


Tengdar fréttir

Strokufanginn enn ófundinn

Lögregla leitar enn að hinum tvítuga Gabríel Douane Boama, sem slapp úr haldi lögreglu í fyrradag.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×