Innlent

Byrjaði 14 ára að syngja með Karlakór Hreppamanna

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Kórfélagarnir í Karlakór Hreppamanna, Friðgeir 77 ára og Jómundur 15 ára.
Kórfélagarnir í Karlakór Hreppamanna, Friðgeir 77 ára og Jómundur 15 ára. Magnús Hlynur Hreiðarsson

Jómundur Atli Bjarnason, sem var 14 ára þegar honum bauðst að syngja með Karlakór Hreppamanna var ekki lengi að slá til og segja já. Nú er hann nýorðinn 15 ára og er að að syngja á sínum fyrstu vortónleikum. 62 ár eru á milli hans og elsta kórfélagans.

Karlakór Hreppamanna æfir í félagsheimilinu á Flúðum en kórinn er skipaður körlum úr uppsveitum Árnessýslu og frá Selfossi. Kórinn er fjölmennur og er alltaf létt yfir mönnum á æfingum. 

Stjórnandi er Atli Guðlaugsson og Sigurður Helgi Oddsson er undirleikari . Barnabarn Atla, Jómundur Atli byrjaði 14 ára að syngja með kórnum. Jómundur er lang, lang yngstur í kórnum en það munar 62 árum á honum og elsta félaganum, Friðgeir Stefánssyni frá Laugardalshólum í Bláskógabyggð.

Hvernig er að vera svona ungur og syngja í karlakór?

„Það er bara mjög gaman og gefandi og maður kynnist fullt af skemmtilegu körlum,“ segir Jómundur.

En hvað er skemmtilegast við að vera í kór?

„Það er bæði félagsskapurinn og svo að syngja saman, það er mjög gaman. Þetta er líka mikill félagsskapur, við förum til dæmis í reiðtúr á hverju ári,“ segir Friðgeir.

Friðgeir og Jómundur Atli standa hlið við hlið á æfingum og á tónleikum, enda í sömu rödd.Magnús Hlynur Hreiðarsson

Bjarni Arnar Hjaltason, formaður Karlakórs Hreppamanna er mjög ánægður með að fá svona ungan og flottan strák í kórinn eins og Jómund Atla.

„Það er bara mjög ánægjulegt. Það eru ekki allir karlakórar, sem geta státað af svona snillingi, við erum allir mjög ánægðir með það.“

Bjarni Arnar Hjaltason, formaður Karlakórs Hreppamanna.Magnús Hlynur Hreiðarsson

Hreppamenn verða með þrenna vortónleika, m.a. í Selfosskirkju föstudagskvöldið 22. apríl og á Flúðum laugardagskvöldið 23. apríl. Formaðurinn lofar góðum tónleikum.

„Já, þetta verður bara skemmtun á heimsmælikvarða eins og okkur er einum lagið,“ segir Bjarni Arnar, stoltur af kórnum sínum.

Karlar úr uppsveitum Árnessýslu og víðar syngja með kórnum.Magnús Hlynur Hreiðarsson
Kórinn er með þrenna vortónleikar vorið 2022.Magnús Hlynur Hreiðarsson


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×