Innlent

Orkan í Fellsmúla hættir að selja bensín

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Vífill Ingimarsson, Silja Mist Sigurkarlsdóttir og Dagur B. Eggertsson undirrituðu samkomulag um lokun bensínstöðvar Orkunnar í Fellsmúla og opnun hleðslustöðvar ON hennar í stað.
Vífill Ingimarsson, Silja Mist Sigurkarlsdóttir og Dagur B. Eggertsson undirrituðu samkomulag um lokun bensínstöðvar Orkunnar í Fellsmúla og opnun hleðslustöðvar ON hennar í stað. Aðsend

Orkan hyggst breyta bensínstöðinni í Fellsmúla í hleðslustöð fyrir rafknúin ökutæki. Bensínstöð hefur verið á þessum stað í Fellsmúla frá árinu 1971 en stefnt er að því að ný hleðslustöð hefji þar starfsemi fyrir lok árs 2023. 

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Orkunni en þar segir að hleðslustöðin verði rekin í samstarfi við Orku náttúrunnar. Yfirvofandi orkuskipti og loftslagsstefna Reykjavíkurborgar kveði á um fækkun bensínstöðva, auk framtíðarstefnumörkun og vistvænum áherslum Orkunnar hafi leitt til þessarar ákvörðunar. 

Dagur B. Eggertsson borgrastjóri, Vífill Ingimarsson framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Orkunnar og Silja Mist Sigurkarlsdóttir markaðsstjóri Orku náttúrunnar undirrituðu samkomulag um breytinguna í dag. 

„Sú mikla ánægja sem hefur verið með hleðslustöðvarnar á stöðvum Orkunnar er okkur hvatning til að halda áfram á þessari braut. Við vitum að rafbílum fjölgar nú hratt, þeir voru meira en helmingur seldra bíla á síðasta ári. Þetta þýðir að fjölga þarf hleðslustöðvum og Orkustöðvarnar eru vel staðsettar nærri stofnbrautum og því vinsælar hjá ökumönnum,“ segir Vífill í tilkynningunni. 

Þar segir jafnframt að Orkan muni halda áfram að þróa þjónustunet sitt á höfuðborgarsvæðinu og að ný Orkustöð verði tekin í gagnið við Lambhagaveg í Úlfarsárdal á næstu tveimur árum samhliða breytingunni í Fellsmúla. 

Samstarf Orkunnar og Orku náttúrunnar hófst árið 2017 og má nú finna hleðslustöðvar ON á átta Orkustöðvum. Þrjár þeirra eru í Reykjavík og fimm á landsbyggðinni en stefnt er að fjölgun þeirra samhliða orkuskiptum bílaflotans. Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.