Fótbolti

Engar íslenskar mínútur hjá FCK | Willum Þór skoraði mark í sigri BATE

Atli Arason skrifar
Willum Þór Willumsson

Willum Þór Willumsson, Ari Freyr Skúlason og Stefán Teitur Þórðarson voru allir í byrjunarliði sinna liða í dag. Enginn Íslendingur spilaði í sigri FC Kaupmannahöfn á Midtjylland.

Willum Þór skoraði þriðja og síðasta mark BATE í 0-3 sigri liðsins á Dnepr Mogilev í hvít-rússnesku deildinni. Willum var í byrjunarliði BATE og spilaði allar 90 mínútur leiksins. Eftir þrjár umferðir í deildinni er BATE eitt á toppnum með níu stig, tveimur stigum meira en Energetik-BGU sem er í öðru sæti.

Ari Freyr byrjaði inn á hjá Norrköping og spilaði fyrri hálfleikinn í 1-0 tapi liðsins á útivelli gegn AIK í sænsku úrvalsdeildinni. Norrköping er stigalaust í 14. sæti deildarinnar eftir tvær umferðir.

Stefán Teitur var í byrjunarliði Silkeborg í 3-0 sigri liðsins á Brondby í dönsku úrvalsdeildinni. Stefáni var skipt af velli á 71. mínútu. Silkeborg er í sjötta og neðsta sæti efri hluta dönsku deildarinnar eftir tvískiptingu.

Hákon Haraldsson sat allan tíman á varamannabekk FCK í 1-0 sigri liðsins á Midtjylland. Ísak Bergmann Jóhannesson, Andri Fannar Baldursson og Orri Steinn Óskarsson voru ekki í leikmannahóp FCK. Eftir sigurinn er FCK áfram eitt á topp dönsku deildarinnar.

Rúnar Alex Rúnarsson var ekki í hóp Leuven sem tapaði 5-0 fyrir Gent í belgísku deildinni. Leuven er í 11. sæti deildarinnar með 41 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×