Innlent

Um­ferðar­hraði tekinn niður á Hvols­velli

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Lilja Einarsdóttir, sveitarstjóri Rangárþings eystra, sem er mjög ánægð með nýju umferðaröryggisáætlunina og að hún hafi verið samþykkt samhljóða í sveitarstjórn.
Lilja Einarsdóttir, sveitarstjóri Rangárþings eystra, sem er mjög ánægð með nýju umferðaröryggisáætlunina og að hún hafi verið samþykkt samhljóða í sveitarstjórn. Magnús Hlynur Hreiðarsson

Heildstæð umferðaröryggisáætlun hefur verið samþykkt fyrir Rangárþing eystra. Áætlunin verður notuð við ákvörðunartöku og forgangsröðun á aðgerðum til þess að bæta umferðaröryggi en meðal annars á að lækka allan hámarkshraða á Hvolsvelli í íbúðagötum niður í 30 kílómetra.

Sveitarstjórn Rangárþings eystra samþykkti samhljóða í vikunni nýju umferðaröryggisáætlunina, sem unnin var af sérstökum starfshópi í samvinnu við Eflu verkfræðistofu.

Lilja Einarsdóttir, sveitarstjóri er mjög ánægð og stolt af nýju umferðaröryggisáætluninni.

„Já, umferðaröryggisáætlun er tæki fyrir sveitarfélagið til þess að greina áhættuþætti í umferðarmálum og geta gert áætlanir og brugðist við til að bæta öryggi heildstætt í sveitarfélaginu. Og markmiðið er að fækka slysum um 5% á ári og það er bara í samræmi við áætlun á landsvísu og þarna getum við forgangsraðað verkefnum og við erum búin að setja upp verkefni númer 1, 2 og 3 og efst á lista er auðvitað þjóðvegur eitt í gegnum Hvolsvöll. Þar þarf að bregðast við,“ segir Lilja.

Lilja segir að það standi líka til að gera úrbætur í umferðarmálum í þorpinu á Hvolsvelli.

„Já, þar sem við erum að taka niður umferðarhraða í öllum íbúðagötum niður í 30 kílómetra hámarkshraða og við fengum núna í haust tvær hraðahindranir á Hlíðaveginn, sem gjörbreytti umferðinni þar og umferðaröryggi fólks. Við viljum fara að gera gangskör í þessum málum, þetta er fyrsta skrefið og nú getum við farið að vinna markvisst,“ sagði Lilja.

Umferðaröryggisáætlun Rangárþing eystraAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.