Erlent

Segir af sér eftir að upp komst um sam­band við mun yngri konu

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Enoksen hér til vinstri ásamt Støre forsætisráðherra og Anniken Huitfeldt utanríkisráðherra.
Enoksen hér til vinstri ásamt Støre forsætisráðherra og Anniken Huitfeldt utanríkisráðherra. EPA/Heiko Junge

Varnarmálaráðherra Noregs, Odd Roger Enoksen, hefur sagt af sér ráðherraembætti eftir að í ljós kom að hann átti í sambandi við sér mun yngri konu frá árinu 2005. Enoksen var þá fimmtugur en konan aðeins átján ára.

Frá þessu greinir Verdens Gang og segir að sambandið hafi hafist þegar konan var í framhaldsskóla. Hún hafi fyrst hitt Enoksen í skólaferðalagi í norska Stórþingið, þegar hann var orkumálaráðherra í ríkisstjórn Jens Stoltenberg.

Stuttu síðar hafi samband þeirra tveggja hafist, sem konan segir að hafi verið kynferðislegt og stafað af gríðarlegum valdamismun milli þeirra tveggja. Enoksen hefur viðurkennt að hafa átt í sambandi við konuna en neitar því að hafa notfært sér valdastöðu sína gagnvart konunni.

Konan hefur sagt frá því að hún hafi hitt Enoksen minnst tólf sinnum á skrifstofu hans á tímabilinu frá ágúst 2006 til október 2007, auk þess sem þau hafi hist nokkrum sinnum í íbúð ráðherrans og í tvö skipti á hóteli.

Konan segir að á sumum fundanna hafi verið stundaðar kynferðislegar athafnir. Þessu neitar Enoksen.

„Hún kom í ráðuneytið, kannski þrisvar eða fjórum sinnum. Stundum var kynferðislegur blær í samræðum okkar, en engin líkamleg snerting,“ hefur VG eftir Enoksen.

Þá er haft eftir Jonas Gahr Støre, forsætisráðherra Noregs, að afsögn Enoksen hafi verið nauðsynleg og honum hafi ekki verið kunnugt um samband hans við konuna. Sagði hann að ef svo væri hefði Enoksen ekki verið skipaður ráðherra í ríkisstjórn hans.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.