Innlent

Boða til mótmæla í dag: „Það er verið að gera til­­raun til þess að endur­­­glæpa­væða banka­­kerfið“

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Þorvaldur Gylfason.
Þorvaldur Gylfason.

Boðað hefur verið til mótmæla vegna sölunnar á Íslandsbanka á Austurvelli klukkan 14 í dag. Einn flutningsmanna segir að með sölunni sé að um ræða tilraun til þess að endurglæpavæða bankakerfið og vill að fjármálaráðherra segi af sér vegna málsins. 

Samtökin Jæja efna til mótmælanna sem hefjast klukkan tvö á Austurvelli en frummælendur eru Ásta Lóa Þórsdóttir, þingmaður Flokks fólksins, Gunnar Smári Egilsson, formaður framkvæmdastjórnar Sósíalistaflokksins, Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR og Þorvaldur Gylfason, prófessor í hagfræði.

„Ég skil og skynja að þau [skipuleggjendur] hafa í huga af fyrri útifundi á Austurvelli af skyldum tilefnum og þá er ég að vísa til búsáhaldarbyltingarinnar. Þannig við frummælendurnir, eins og skipuleggjendurnir, viljum mjög gjarnan að sem flestir flykkist á Austurvöll til þess að spjalla saman og heyra það sem við höfum að segja,“ sagði Þorvaldur Gylfason í hádegisfréttum Bylgjunnar.

Heldur þú að þetta verði fjölmenn mótmæli? 

„Ég vona það. Ærin eru tilefnin. Það er verið að gera tilraun til þess að endurglæpavæða bankakerfið og hörðu viðbrögð almennings úr öllum áttum í útvarpi, sjónvarpi og á félagsmiðlum taka af öll tvímæli um það að fólkið í landinu vill ekki láta þennan ósóma yfir sig ganga.“

Vill að fjármálaráðherra „snauti heim til sín“

Hann segir að Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, beri höfuðábyrgð í málinu.

„Ráðherrann er höfuðarkitekt og upphafsmaður málsins og það er hann sem á að taka ábyrgðina. Hann á að segja af sér og snauta heim til sín.“

„Ég hvet alla góða Íslendinga til þess að koma á fundinn til þess að lýsa andúð sinni á því sem um er að vera.“


Tengdar fréttir

Stjórnar­þing­maður vill stjórn og for­stjóra Banka­sýslunnar frá

Bjarni Jónsson, þingmaður Vinstri grænna, telur að Bankasýsla ríkisins myndi eiga auðveldara með að endurheimta traust almennings eftir nýafstaðið söluferli á hlut ríkisins í Íslandsbanka ef stjórn hennar og forstjóri myndu víkja. Hann telur að ekki ætti að ráðast í frekari sölu á hlut ríkisins að svo stöddu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×