Innlent

Bankasýslan þvertekur fyrir að lög hafi verið brotin

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Bankasýslan segir að ákvæðum laga hafi verið fylgt í einu og öllu við söluna á Íslandsbanka.
Bankasýslan segir að ákvæðum laga hafi verið fylgt í einu og öllu við söluna á Íslandsbanka. Vísir/Vilhelm

Bankasýsla ríkisins vísar á bug hvers kyns sjónarmiðum um að fyrirkomulag við sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka hafi verið í andstöðu við lög.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Bankasýslunni, þar sem áréttað er að við sölumeðferðina hafi ákvæðum laga verið „fylgt í hvívetna,“ þar með talið laga nr. 155/2012 um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

Í samtali við fréttastofu ítrekaði Jón G. Jónsson, forstjóri Bankasýslunnar, þessi sjónarmið og sagði fráleitt að halda því fram að söluferlið hefði verið í andstöðu við lög.

Í dag var greint frá því að Sigríður Benediktsdóttir, hagfræðingur við Yale-háskóla og fyrrverandi framkvæmdastjóri fjármálastöðugleikasviðs Seðlabanka Íslands, teldi að lög um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum hefðu verið brotin við söluna á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

Sigríður sat í rannsóknarnefnd Alþingis sem fjallaði um bankahrunið 2008. Sagðist hún telja að 3. grein laganna og mögulega 2. grein hefðu verið brotnar.

Fyrr í dag gaf Ríkisendurskoðun það út að hún hefði fallist á beiðni Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra um úttekt á söluferlinu, hverrar niðurstaða á að liggja fyrir í júní á þessu ári. Þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa í dag krafist þess að sett verði á fót rannsóknarnefnd Alþingis um málið, en þau sjónarmið virðast ekki njóta fylgis hjá meirihlutanum.


Tengdar fréttir

Einn höfunda Rannsóknarskýrslu Alþingis vill að fjármálaráðherra víki

Einn höfunda Rannsóknarskýrslu Alþingis um fjármálahrunið  telur að fjármálaráðherra þurfi að víkja vegna útboða á hlut ríkisins í Íslandsbanka. Of mikill afsláttur hafi verið gefinn bæði í fyrra og nú og þá hafi komið fram of miklir vankantar til að honum sé treystandi. 

Stefna á að birta niður­stöður út­tektarinnar í júní

Ríkisendurskoðun hefur fallist á beiðni Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra um úttekt á nýafstöðnu útboði og sölu á tæplega fjórðungshlut ríkisins í Íslandsbanka. Stefnt er að því að niðurstaðan verði birt í júní.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×