Fótbolti

Gagnrýnir varnarsinnaðan leikstíl Atlético: „Í fyrsta sinn sem ég hef séð lið spila 5-5-0“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Kevin De Bruyne og félagar í Manchester City mættu þéttum varnarmúr Atlético Madrid í gær.
Kevin De Bruyne og félagar í Manchester City mættu þéttum varnarmúr Atlético Madrid í gær. getty/Vincent Mignott

Spánarmeistarar Atlético Madrid eignuðust ekki marga aðdáendur með spilamennsku sinni gegn Manchester City í fyrri leik liðanna í sextán liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í gær.

Lið Atlético var mjög varnarsinnað og hætti sér sjaldan inn á vallarhelming City. Spænsku meistararnir voru aðeins þrjátíu prósent með boltann í leiknum á Etihad og áttu ekki skot að marki heimamanna.

Kevin De Bruyne, sem skoraði eina mark leiksins á 70. mínútu, segir ekkert nýtt að lið séu varfærin gegn City en það hafi náð nýjum hæðum í gær.

„Þetta gerist svo oft fyrir okkur. Síðan Pep [Guardiola] tók við spila lið mjög varnarsinnað gegn okkur,“ sagði De Bruyne. „Í dag, í fyrsta sinn, sá ég lið spila 5-5-0. Ekki með neinn framherja.“

Diego Simeone var vissulega með tvo framherja í byrjunarliði sínu, Antoine Griezmann og Joao Félix, en þeir voru mjög aftarlega og á köflum eins og kantmenn.

Seinni leikur Atlético og City fer fram á Wanda Metropolatino vellinum í Madríd 13. apríl. Á laugardaginn mætir City svo Liverpool í toppslag í ensku úrvalsdeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×