Erlent

Fyrsta mál ein­stak­lings tengt Dar­fúr til kasta Al­­þjóð­­lega stríðs­­glæpa­­dóm­­stólsins

Atli Ísleifsson skrifar
Ali Muhammad Ali Abd-Al-Rahman er sakaður um stríðsglæpi og glæpi gegn mannkyni.
Ali Muhammad Ali Abd-Al-Rahman er sakaður um stríðsglæpi og glæpi gegn mannkyni. Getty

Réttarhöld í máli Ali Muhammad Ali Abd-Al-Rahman, leiðtoga súdansks uppreisnarhóps, hófust hjá Alþjóðlega stríðsglæpadómstólnum í Haag í morgun. Um er að ræða fyrsta mál einstaklings sem fer fyrir dómstólinn og tengist ódæðum í Darfúr-héraði í Súdan fyrr á öldinni.

Abd-Al-Rahman, einnig þekktur sem Ali Kushayb, er ákærður fyrir stríðsglæpi og glæpi gegn mannkyni sem framdir voru á árunum 2003 til 2004, en ákæran er í 31 lið. Hann neitaði sök í málinu í morgun.

Átökin í Darfúr-héraði hófust þegar uppreisnarhópar hófu skæruhernað gegn stjórnarher landsins, þar sem þeir töldu sig vera undirokaða. Omar al-Bashir Súdansforseti svaraði árásunum með stórfelldum árásum gegn uppreisnarhópunum og hafa ásakanir um fjöldamorð, nauðganir og stríðsglæpi gengið á víxl.

Áætlað er að um 300 þúsund manns hafi látist á átökunum og nærri 2,7 milljónir manna þurft að flýja heimili sín vegna átakanna.

Al-Bashir er nú í fangelsi í höfuðborginni Kartúm þar sem hann hefur verið frá því að herinn bolaði ríkisstjórn hans frá völdum árið 2019. Hann hefur sömuleiðis verið ákærður fyrir þjóðarmorð og glæpi gegn mannkyni.

Abd-Al-Rahman er sakaður um morð, pyndingar, nauðgun, ofsóknir og árásir gegn óbreyttum borgurum þegar hann gegndi stöðu leiðtoga uppreisnarhópsfrá ágúst 2003 og apríl 2004.

Réttarhöldin hefjast um svipað leyti og fréttir hafa borist af mannskæðum átökum í Darfúr-héraði.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×