Innlent

Klúðurslegt hjá Sigurði Inga

Snorri Másson skrifar

Sigurður Ingi Jóhannsson baðst fyrr í dag afsökunar á því sem hann lýsti sem „óviðurkvæmilegum ummælum“ sínum í garð Vigdísar Häsler, framkvæmdastjóra Bændasamtakanna. Ummælin tengdust kynþætti hennar og er hann sagður hafa vísað til hennar sem „þeirrar svörtu.“

Þess hefur verið krafist að Sigurður Ingi segi af sér vegna málsins en Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefur varið ráðherrann og sagt að taka verði það gilt þegar menn biðjist afsökunar.

Brynjar Níelsson, aðstoðarmaður dómsmálaráðherra, var til viðtals í Íslandi í dag í kvöld. Í þættinum, sem má sjá hér að ofan, var stemningin á Alþingi einkum til umræðu og einnig var rætt við þingmenn um starfsandann, sem skiptar skoðanir eru um.

Komið var inn á ummæli Sigurðar Inga og Brynjar sagði þar að hann teldi að vel kynni að vera að málið hefði pólitískar afleiðingar fyrir Sigurð Inga.

„En hann hefur beðist afsökunar. Þetta er klúðurslegt, það eru klúðursleg viðbrögðin í upphafi. En hann hefur beðist afsökunar og þá er ég þannig maður að þá er málinu bara lokið af minni hálfu. Auðvitað kann þetta þó að hafa einhverjar pólitískar afleiðingar fyrir hann,“ sagði Brynjar.

„Vigdís er mikil afbragðskona, mikill vinur minn, og þetta er bara mjög leiðinlegt. En ég geri ráð fyrir því að þetta sé gert bara einhverri fýlu og reiði og svo bara biðst hann afsökunar. Þá bara finnst mér að málinu sé lokið,“ sagði Brynjar.

Eðlileg krafa að ráðherrar sigti fólk ekki út vegna kynþáttar

Atli Þór Fanndal, framkvæmdastjóri Íslandsdeildar Transparency International.

Atli Þór Fanndal, framkvæmdastjóri Íslandsdeildar Transparency International, var einnig til viðtals. Hann sagði undarlegt að afsökunarbeiðnin kæmi nú eftir að því var fyrst haldið fram að Sigurður Ingi hafi vísað til þess að Vigdís sé í Sjálfstæðisflokknum. Þeim framburði hafi síðan verið breytt.

Hver afdrif ráðherra verði segir Atli að velti á Framsóknarmönnum.

„Það fer náttúrulega fyrst og fremst eftir því hvort kjósendur Framsóknarflokksins séu tilbúnir að vera með ráðherra sem er með svona ummæli um annað fólk. Þar verður þrýstingurinn að koma,“ sagði Atli.

„Mér finnst nú alveg eðlileg krafa á ráðherra að þeir séu ekki að sigta fólk út vegna kynþátta. Ég veit ekki hvort málinu sé því lokið alveg strax,“ sagði Atli.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×