Innlent

Stjórnvöld ráðast í úttekt á aðstæðum barna innan trúarhópa

Sunna Valgerðardóttir skrifar
Rakel Íris greindi frá erfiðri æsku og uppvexti innan Votta Jehóva. Hún var rekin úr söfnuðinum fyrir átta árum og hefur ekki fengið að hitta fjölskyldu sína síðan. Rakel, og fleiri fyrrverandi meðlimir sértrúarsafnaða, hafa kallað eftir aðkomu stjórnvalda þegar kemur að aðstæðum barna innan trúfélaga á Íslandi.
Rakel Íris greindi frá erfiðri æsku og uppvexti innan Votta Jehóva. Hún var rekin úr söfnuðinum fyrir átta árum og hefur ekki fengið að hitta fjölskyldu sína síðan. Rakel, og fleiri fyrrverandi meðlimir sértrúarsafnaða, hafa kallað eftir aðkomu stjórnvalda þegar kemur að aðstæðum barna innan trúfélaga á Íslandi. Vísir

Barnamálaráðherra segir að tilvonandi úttekt stjórnvalda á aðstæðum barna í trúarhópum mikilvægt skref. Varaþingmaðurinn sem átti frumkvæði að gerð skýrslunnar segir það hafa komið á óvart hversu lítið þessi mál hafi verið rannsökuð hér.  Skoðað verður hvort það þurfti sérstakt eftirlit með æskulýðsstarfi í trúfélögum.

Kompás og fréttastofan hafa fjallað um trúarofbeldi og aðstæður fólks innan kristinna sértrúarsafnaða, þar sem fyrrverandi meðlimir hafa stigið fram og lýst reynslu sinni. Eva Dögg Davíðsdóttir átti frumkvæði að skýrslubeiðninni til barnamálaráðherra þegar hún sat á þingi sem varaþingmaður VG nú í mars.

„Ég sá að það hefur í raun ekki verið farið út í svona athuganir hvernig börn standa innan trú og lífsskoðunarfélaga. Og þá á ég við þennan stóra hóp, 80 þúsund börn, sem eru innan trú- og lífsskoðunarfélaga, líka þjóðkirkjunnar,” segir Eva. 

Skoða hvort það þurfi sérstakt eftirlit með starfinu

Níu þingmenn úr fjórum flokkum eru á þingskjalinu, flest úr VG, en líka frá Samfylkingu, Viðreisn og Pírötum. Eva Dögg bjó í Noregi og segir hún töluverða umræðu þar um aðstæður barna innan trúarhópa.

„Það kom mér á óvart að sjá hversu lítið við höfum gert til að gæta að réttarstöðu barna innan trúfélaga.”

Skýrslan verður í fimm liðum og verður þar meðal annars skoðað hvaða afleiðingar það getur haft á börn að alast upp við afmarkaða menningu innan trúfélags, hvaða hindrunum börn kunni að mæta ef þau yfirgefa trúfélag, hvort það eigi að auka eftirlit með æskulýðsstarfi innan trúfélaga. 

Eva Dögg Davíðsdóttir, varaþingmaður Vinstri grænnaVísir/Vilhelm

Fyrsta úttektin á stöðu barna innan trúarhópa

Ásmundur Einar Daðason barnamálaráðherra segir aðkomu fleiri ráðuneyta nauðsynlega og að þetta sé tímabært skref að taka. 

„Börn eiga að fá að hafa sína rödd og þau eiga að hafa sín réttindi. Og það er alveg sama hvar það er í íslensku samfélagi að börn búa við óréttlæti eða að raddir þeirra fá ekki að heyrast eða þau fá ekki að segja sína skoðun, þá þurfum við að grípa inn í.”

„Mér vitanlega hefur ekki verið unnin vinna á sambærilegum nótum áður,” segir Ásmundur Einar. „Ég lít á þessa skýrslubeiðni að hún sé líka hugsuð til þess að við tökum þennan þátt sérstaklega fyrir og það er gott tilefni til þess. Og það að það séu þingmenn frá fleiri en einum flokki á henni, það gefur líka tilefni til þess að sýna að þetta er mikilvægt skref í því að taka réttindamál barna á næsta stig.”


Tengdar fréttir

Útskúfað úr ríki Guðs og standa ein eftir

Ung kona sem var rekin úr söfnuði Votta Jehóva, hefur ekki fengið að hitta fjölskylduna sína í átta ár. Fyrrverandi meðlimir Vottanna lýsa gífurlegu andlegu ofbeldi eftir útskúfun, harðræði gegn börnum í söfnuðinum og hvernig það skorti fagleg úrræði og aðstoð eftir að hafa hætt í sértrúarsöfnuði. Þær kalla eftir því að ofbeldið, sem hefur verið látið viðgangast áratugum saman, hætti og að ríkið stígi inn í.

Engin úrræði fyrir þolendur ofbeldis og útskúfunar í ríkisstyrktum trúfélögum

Engin fagleg úrræði eru til staðar fyrir fólk sem hættir í sértrúarsöfnuðum á Íslandi og segja margir fyrrverandi meðlimir að mikil þörf sé á slíku. Þingmaður segir skorta eftirlit með starfsemi trúarhreyfinga og að sóknargjöld séu barn síns tíma. Fyrrverandi meðlimir Votta Jehóva lýsa andlegu ofbeldi eftir útskúfun og harðræði gegn börnum í söfnuðinum.

Flúðu trúarof­beldi í sér­trúar­söfnuðum á Ís­landi

Mörg þúsund Íslendingar hafa tilheyrt sértrúarsöfnuðum. Ein sterkustu einkenni hópanna eru strangt skipulag, mikið kennivald og félagslegt taumhald sem er vaktað af valdamiklum leiðtoga. Fólk sem hættir í söfnuðunum upplifir flest depurð, kvíða og áfallastreitu eftir dvölina og mörg hafa orðið fyrir alvarlegu ofbeldi. Í Kompás köfum við ofan í hugtakið trúarofbeldi og ræðum við fyrrverandi meðlimi sértrúarsafnaða.

Útskúfað úr Vottunum og dóttirin lokaði á samskipti

Móðir mín, þýsk kona sem tapað hafði öllu sínu, heimili sínu tvisvar í loftárásum, bróður og föður á vígvellinum, sem og öðrum nákomnum í brjálæði heimstyrjaldarinnar, kom til Íslands eftir stríð, kynntist manni eftir tveggja ára dvöl, giftist honum og eignuðust þau tvö börn.

„Eruð þið að pína barnið til að segja þetta?“

Malín Brand, fyrrverandi Vottur Jehóva, segist hafa sagt skilið við allt nema geðheisluna þegar hún yfirgaf söfnuðinn árið 2004. Malín er á meðal fyrrverandi Votta sem stigið hafa fram undanfarna daga í kjölfar umfjöllunar fréttastofu um trúmál og lýst því trúarofbeldi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×