Fótbolti

Grét af gleði þegar Kanada komst loksins á HM: „Draumurinn hefur ræst“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Alphonso Davies leyfði aðdáendum sínum að fylgjast með þegar hann komst að því að Kandamenn væru öruggir með sæti á HM.
Alphonso Davies leyfði aðdáendum sínum að fylgjast með þegar hann komst að því að Kandamenn væru öruggir með sæti á HM.

Kanadíski landsliðsmaðurinn Alphonso Davies gat ekki haldið aftur af tárunum þegar Kanada komst á HM í fyrsta sinn í 36 ár.

Kanadamenn tryggðu sér farseðilinn á HM í Katar með 4-0 sigur á Jamaíkumönnum í Toronto í gær. Cyle Larin, Tajon Buchanan og Junior Hoilett skoruðu í rétt mark og Andrian Mariappa í rangt mark.

Kanadamenn fögnuðu vel og innilega enda að komast á HM í fyrsta sinn síðan 1986. Kanada tapaði þá öllum þremur leikjunum sínum og skoraði ekki mark.

Davies er skærasta fótboltastjarna Kanada en gat ekki tekið þátt í leiknum í gær. Hann hefur ekkert spilað undanfarna mánuði vegna hjartavandamála. Davies fylgdist samt að sjálfsögðu með leiknum í sjónvarpinu og leyfði aðdáendum sínum að fylgjast með á Twitch þegar lokaflautið gall.

„Ég er á leiðinni á HM! Við erum á leiðinni á HM, maður! Ég trúi þessu ekki,“ gólaði Davies og grét af gleði. „Ég er að fara að gráta. Draumurinn hefur ræst.“

Davies, sem er 21 árs, hefur leikið þrjátíu landsleiki og skorað tíu mörk. Hann hefur leikið með Bayern München frá 2018.

Foreldarar Davies eru frá Líberíu en hann fæddist í flóttamannabúðum í Gana. Þegar hann var fimm ára flutti fjölskyldan til Kanada og settist að í Edmonton.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×