Fótbolti

Sara: Ótrúlegt hvað kroppurinn er búinn að aðlagast vel

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sara Björk Gunnarsdóttir eignaðist sitt fyrsta barn í nóvember en er komin aftur á ferðina með einu sterkasta lið heims.
Sara Björk Gunnarsdóttir eignaðist sitt fyrsta barn í nóvember en er komin aftur á ferðina með einu sterkasta lið heims. getty/Tullio Puglia

Sara Björk Gunnarsdóttir segir að það hafi komið sér á óvart hversu fljótt hún var kominn aftur inn á völlinn eftir barnsburð.

Landsliðsfyrirliðinn lék sinn fyrsta leik í rúmt ár þegar Lyon vann 0-3 sigur á Dijon í frönsku úrvalsdeildinni á föstudaginn. Sara kom inn á sem varamaður í hálfleik, eitthvað sem hún bjóst ekki við.

„Það kom mér eiginlega á óvart. Ég bjóst ekki við að fá 45 mínútur. Ég var voða róleg í hálfleik, ætlaði bara að fara inn að pissa og fá mér eitthvað að borða en svo var mér sagt að ég væri að koma inn á. Ég var bara vú, ok,“ sagði Sara í samtali við Ríkharð Óskar Guðnason í Sportpakkanum.

„Það er aðeins meira en ár síðan ég spilaði síðast en ótrúlegt hvað kroppurinn er búinn að aðlagast vel og mér líður ótrúlega vel.“

Íslenska kvennalandsliðið á tvo leiki í undankeppni HM í næsta mánuði. Sara segist hafa verið í sambandi við landsliðsþjálfarann Þorstein Halldórsson.

„Ég er búinn að heyra tvisvar í honum. Hann er búinn að kanna á stöðunni á mér. Ég hef reyndar ekkert heyrt í honum eftir leikinn en auðvitað eitthvað varðandi apríl-verkefnið. Hann ætlaði reyndar að heyra í mér aftur áður en hann tilkynnir hópinn þannig að það kemur í ljós,“ sagði Sara aðspurð hvort hún yrði í landsliðshópnum fyrir næstu leiki.

Næsti leikur Lyon er gegn Juventus í átta liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu á morgun.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×