Innlent

Þórarinn býður sig fram til for­mennsku í Starfs­greina­sam­bandinu

Árni Sæberg skrifar
Þórarinn vill verða formaður Starfsgreinasambandsins.
Þórarinn vill verða formaður Starfsgreinasambandsins. Aðsend

Þórarinn G. Sverrisson, formaður Öldunnar stéttarfélags, hefur ákveðið að gefa kost á sér til formennsku í Starfsgreinasambandi Íslands. Björn Snæbjörnsson lætur af starfi formanns að loknu þingi sambandsins í lok mánaðar.

Á 8. þingi Starfsgreinasambandsins, sem fram fer í Hofi á Akureyri dagana 23. - 25. mars, verður kosið til formanns, varaformanns og framkvæmdastjórnar sambandsins. Ljóst er að kosið verður um nýjan formann eftir tólf ára setu fráfarandi formanns. 

Nú hafa tveir boðið sig fram, Þórarinn og Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness.

Þórarinn segist munu beita sér fyrir því að sætta ólík sjónarmið með virku sambandi við forystu allra félaga innan SGS. Þá leggur hann áherlsu á að raddir allra fái að heyrast og að tekið verði tillit til ólíkra sjónarmiða, með sátt og samráði.

„Á sama hátt og við leggjum mikið upp úr því að hlustað sé á raddir smáþjóða í alþjóðlegu samstarfi, vil ég að tekið sé tillit til hagsmuna og sjónarmiða allra aðildarfélaga burtséð frá stærð þeirra og að sjálfsákvörðunarréttur einstakra félaga sé hafður í hávegum,“ segir hann.

Þórarinn segir mikilvæg verkefni vera á döfinni, þar á meðal gerð kjarasamninga. í þeirri vinnu sé mikilvægt að aðildarfélög SGS stilli saman strengi sína og taki tillit hvert til annars. „Það þjónar engum tilgangi að við eyðum kröftunum í innbyrðis átök og gagnast engum nema viðsemjendum okkar,“ segir hann.

„Ég vil leggja mitt af mörkum til þess að Starfsgreinasambandið sé það afl sem getur með samtakamættinum náð afgerandi árangri fyrir félagsmenn,“ segir Þórarinn Sverrisson, formaður Öldunnar, í lok fréttatilkynningar um framboð sitt til formennsku í Starfsgreinasambandinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×