Fótbolti

„Út í hött að bera mig saman við Messi“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Óhætt er að segja að menn hjá Barcelona séu spenntir fyrir framtíðinni með Pedro „Pedri“ Gonzalez.
Óhætt er að segja að menn hjá Barcelona séu spenntir fyrir framtíðinni með Pedro „Pedri“ Gonzalez. Getty/Eric Alonso

Hver þarf Messi þegar þú ert með þennan strák? Það er aftur komin mikil bjartsýni í herbúðir Barcelona eftir dimma daga undanfarin misseri. Einn af sólargeislunum er Pedri.

Pedri minnti á Lionel Messi í gær þegar hann hjálpaði Barcelona að slá Galatasaray út úr sextán liða úrslitum Evrópudeildarinnar.

Galatasaray hafði komist yfir í leiknum þegar Pedri tók til sinna ráða og skoraði jöfnunarmarkið eftir stórkostlegt einstaklingsframtak. Pierre-Emerick Aubameyang skoraði sigurmarkið í upphafi seinni hálfleiks. Það voru samt allir að tala um mark Pedri.

Pedri fékk boltann í teignum og plataði tvo varnarmenn Galatasaray svo illa að þeir enduðu báðir á grasinu áður en strákurinn skoraði.

Slík tilþrif í búningi Barcelona kalla náttúrulega bara á eina samlíkingu.

„Ekki sjens,“ voru fyrstu viðbrögð Pedri þegar blaðamenn fóru að bera hann saman við Messi.

„Messi hefur skorað miklu betri mörk. Það er út í hött að bera mig saman við Messi,“ sagði Pedri.

„Ég man eiginlega ekki eftir markinu svo ég verð að horfa á það aftur. Þetta er samt örugglega eitt fallegasta markið sem ég hef skorað.  Hlutirnir koma bara til mín á fótboltavellinum og ég er heppinn að þurfa ekki að hugsa mikið,“ sagði Pedri.

Það er kannski það magnaðast við strákinn að hann spilar leikinn af tilfinningu og allt kemur til hans náttúrulega.

Þjálfari hans Xavi Hernandez hrósaði markinu.

„Þetta er mikilfenglegt mark. Það er virkilega fallegt. Pedri getur þetta og svo mikið meira. Hann er enn bara nítján ára gamall. Þvílík forréttindi að hafa hann. Ég gæti ekki hrósað honum meira,“ sagði Xavi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×