Innlent

Ógnar­stórum höglum rigndi yfir íbúa í Vest­manna­eyjum

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Höglin eru nærri jafnstór og hundrað krónu peningur eins og sjá má á myndunum.
Höglin eru nærri jafnstór og hundrað krónu peningur eins og sjá má á myndunum. Gísli Matthías Auðunsson

Gríðarlega stórum höglum rigndi yfir íbúa í Vestmannaeyjum í miklum éljagangi skömmu eftir klukkan 17 í dag. Veðurfræðingur segist aldrei hafa séð jafnstór högl hér á landi.

Gísli Matthías Auðunsson veitingamaður og íbúi í Vestmannaeyjum segir í samtali við fréttastofu að sér hafi verið nokkuð brugðið: „Þetta var svakalegt,“ segir hann nokkuð brattur í samtali við fréttastofu.

Hann telur að éljagangurinn hafi staðið yfir í fimm mínútur og segir að lætin hafi verið mikil. Gísli veit ekki hvort skemmdir hafi hlotist af en tjón virðist ekkert hafa orðið við fyrstu sýn.

Birta Líf Kristinsdóttir, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir í samtali við fréttastofu að hún hafi aldrei séð jafnstór él hér á landi.

„Þetta er mjög sjaldgæft á Íslandi, þetta er mjög sjaldgæft. Við erum yfirleitt að vinna með litla bolta, það er gerður greinarmunur á litlu og stóru hagléli en það er yfirleitt bara þetta litla,“ segir Birta.

„Ég sé hérna á radar, akkúrat þarna yfir Vestmannaeyjum síðasta hálftímann þá er þetta bara eiginlega einn myndarlegasti éljabakki sem ég hef séð. Mér finnst mjög skrýtið að það hafi ekki einhverjar eldingar mælst í þessu.“

Hún segir að mikill óstöðugleiki í loftinu valdi svona stórum höglum. Veðurástandið sé þó mjög sjaldgæft á Íslandi.

„Þessi haglél þurfa að haldast svolítið lengi inni í skýinu til að verða svona stór, en yfirleitt er uppstreymið ekki svona sterkt til að ná þessu hér á landi.“

Birta segir að éljagangur hafi verið á Faxaflóa og Snæfellsnesi auk eldinga í dag en aðspurð segir hún að draga eigi úr óstöðugleikanum með kvöldinu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×