Innlent

Innlit í fyrsta neyslurými á Íslandi

Snorri Másson skrifar
Ylja er fyrsta neyslurýmið á Íslandi.
Ylja er fyrsta neyslurýmið á Íslandi. Aðsend mynd

Mikilvægt skref var stigið í átt til skaðaminnkunar í dag með opnun fyrsta neyslurýmis Rauða krossins, þar sem fólk getur komið og sprautað sig með vímuefnum í öruggu umhverfi.

Neyslurýmið heitir Ylja - hún er færanlegur flutningabíll sem hefur verið innréttaður í nýjum tilgangi. Bíllinn opnar klukkan 10 og lokar klukkan 16, og miðað er við að hver gestur geti staldrað við í um fjörutíu mínútur eftir að skammturinn hefur verið tekinn inn.

Hafrún Elísa Sigurðardóttir, verkefnastýra hjá Frú Ragnheiði, segir marga sem nýti sér úrræði þeirra óttast stöðugt um líf sitt. Þeir séu enda að nota sterka ópíóða, sem er vel að merkja algengasta vímuefnið sem er sprautað í æð.

Hafrún Elísa Sigurðarsdóttir er verkefnastjóri hjá Rauða krossinum.Rauði krossinn

„Við erum að reyna að koma í veg fyrir ofskammta og að fólk sé að fá ofskammta úti. Við erum að heyra af mikið af dauðsföllum af völdum ópíóða og þetta er eitt skref í átt að því að koma í veg fyrir það,“ segir Hafrún.

Að sögn Hafrúnar eru vinnudagarnir í neyslurými ekkert nauðsynlega erfiðari en aðrir vinnudagar. „Sumir dagar eru erfiðir eins og í öðrum vinnum, en þetta er mjög skemmtileg vinna og maður kynnist yndislegu fólki,“ segir Hafrún.

Lyfjatengd andlát eru talin fleiri hér á landi en á öðrum Norðurlöndunum. Þau voru 24 bara á fyrstu sex mánuðum síðasta árs. Og hugmyndafræði skaðaminnkunar hefur um víða veröld rutt sér til rúms til höfuðs þessum vanda, þótt enn sé hún ekki óumdeild.

„Fólk er að átta sig á mikilvægi skaðaminnkunar. Svona fordómar byggjast mjög oft á hræðslu og vanþekkingu og ég hvet bara alla til að kynna sér skaðaminnkandi hugmyndafræði,“ segir Hafrún.

Með tilkomu Ylju er reiknað með að líkurnar á dauðsföllum minnki - enda heilbrigðisstarfsmaður alltaf á staðnum. Markmiðið er um leið að kortleggja þörfina á varanlegu húsnæði, með lengri opnunartíma og meiri þjónustu.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×