Innlent

Ráðist á tvo nem­endur í Austur­bæjar­­skóla með bar­efli

Eiður Þór Árnason skrifar
Atvikið átti sér stað fyrir utan matsal Austurbæjarskóla. 
Atvikið átti sér stað fyrir utan matsal Austurbæjarskóla.  Vísir/Vilhelm

Ráðist var á tvo nemendur í efstu deild Austurbæjarskóla í gær og þeir barðir með barefli. Annar þeirra var fluttur á bráðamóttöku og hinn á heilsugæslu.

Að sögn skólastjórnenda er meintur gerandi nemandi í skólanum en annar einstaklingur sem var með honum í för ótengdur Austurbæjarskóla. Sjúkrabíll og lögregla voru kölluð á staðinn og vinnur lögregla að rannsókn málsins.

Greint er frá þessu í tölvupósti Kristínar Jóhannesdóttur skólastjóra til foreldra en þar kemur fram að málið hafi verið tilkynnt til Barnaverndar. Öryggismyndavélar skólans hafi náð hluta atviksins sem átti sér stað í hádeginu fyrir framan matsal skólans.

Ekki náðist í Kristínu við vinnslu fréttarinnar. Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundarsviðs Reykjavíkurborgar, segist ekki geta tjáð sig um málið. 

Í tölvupósti til foreldra segir að nemendum í 8. til 10. bekk og starfsfólki sem urðu vitni að atvikinu sé afar brugðið. Þeim standi til boða að fá áfallahjálp frá fagaðila auk þess að geta leitað til námsráðgjafa.

Áfram verði unnið með mál meints geranda og þolenda, auk þess sem farið verði yfir öryggisferla skólans í kjölfar atviksins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×