Innlent

Slógust á Selfossi og talið að myndband sé í dreifingu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Átökin brutust út við Vallaskóla á Selfossi.
Átökin brutust út við Vallaskóla á Selfossi. Árborg

Til átaka kom meðal fjögurra drengja á unglingastigi á Selfossi um tíuleytið í morgun. Þetta kemur fram í tölvupósti skólastjóra Vallaskóla til foreldra og forráðamanna. Hann segir hluta drengjanna nemendur við skólann og grunur á að myndskeið af átökunum sé í dreifingu. Hugrakkt starfsfólk hafi skorist í leikinn.

Rúmar tvær vikur eru síðan Lögreglan á Suðurlandi sendi frá sér tilkynningu vegna vísbendinga um að börn á Selfossi boðuðu til átaka, tæki þau upp og deildu á samfélagsmiðlum. Málið væri litið alvarlegum augum.

Átökin í morgun urðu fyrir utan Engjavegsanddyrið á Sólvöllum. Guðbjartur Ólason, skólastjóri í Vallaskóla, segir í tölvupóstinum að starfsfólk skólans hafa komið fljótt á vettvang og brugðist fagmannlega við. Enginn hafi hlotið verulega áverka í átökunum.

„Atvikið er litið alvarlegum augum og fór af stað viðbragð, viðeigandi aðila, þ.e. lögreglu og barnaverndar,“ segir Guðbjartur. Að öðru leyti geti hann ekki tjáð sig um atburðarásina og vísar til rannsóknarhagsmuna.

Grunur sé uppi um að myndskeið af atvikinu sé til og í dreifingu. Biðlar Guðbjartur til foreldra að leita til lögreglu telji þeir að börn þeirra hafi myndskeiðið undir höndum.

„Það slær okkur óhug þegar svona gerist en um leið er ég óskaplega feginn að ekki fór ferr,“ segir Guðbjartur. Starfsfólk hafi af hugrekki beitt sér í aðstæðunum, róað nemendur og fylgst með líðan þeirra. Málið sé nú í höndum skólastjóra og fyrrnefndra yfirvalda.

Starfsfólk hafi fengið þau fyrirmæli að fylgjast áfram vel með líðan nemenda og beina þeim sem líður illa til viðtals hjá náms- og starfsráðgjafa. Þá eru foreldrar beðnir um að fylgjast með líðan barna sinna.

Guðbjartur hyggst ávarpa nemendur á unglingastigi á sal á morgun.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×