Innlent

Viðar býður sig fram í 4.-5. sæti hjá Sjálf­stæðis­mönnum í Reykja­vík

Atli Ísleifsson skrifar
Viðar Guðjohnsen.
Viðar Guðjohnsen. Aðsend

Viðar Guðjohnsen, sérfræðingur hjá Lyfjastofnun, hefur tilkynnt að hann bjóði sig fram í 4.-5. sæti í prófkjöri Sjálfstæðismanna í Reykjavík vegna komandi borgarstjórnarkosninga.

Í tilkynningu segir Viðar að hann hafi tekið þessa ákvörðun að vel ígrunduðu máli; bæði eftir mikinn stuðning frá flokksmönnum í grasrótinni en jafnframt og ekki síður vegna þess að hann telji flokkinn þurfa ungan, stefnufastan og ábyrgan fjölskyldumann á lista flokksins.

„Ég er með skýra sýn með hvaða hætti við sjálfstæðismenn getum sigrað borgina. Ég vil að betur sé farið með almannafé, ég vil að reist séu umferðarmannvirki í samræmi við mannfjöldaþróun og ég vil að borgin fái fjölskylduvæna ásýnd. Í því samhengi vil ég sjá að reist verði ný hverfi þar sem lítil einbýlishús og sérbýli fá að njóta sín. Þá vil ég ekki að rótgróin og fjölskylduvæn hverfi verði þéttingarstefnu meirihlutans að bráð.

Ég þarf þinn stuðning í 4.-5. sæti. Þið getið nálgast frekari upplýsingar um framboðið á www.betriborg.is,“ segir Viðar.

Viðar hefur starfað innan Sjálfstæðisflokksins frá árinu 2009, þar á meðal sem stjórnarmaður í Sambandi ungra sjálfstæðismanna og varaformaður hverfafélagsins í Félagi sjálfstæðismanna í Smáíbúða-, Bústaða- og Fossvogshverfi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×