Fótbolti

Xavi búinn að kveikja á tveimur „vandamálapésum“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pierre-Emerick Aubameyang er búinn að snúa umræðunni um sig við síðan að hann komst til Barcelona eftir að hafa verið í frystikistunni hjá Arsenal.
Pierre-Emerick Aubameyang er búinn að snúa umræðunni um sig við síðan að hann komst til Barcelona eftir að hafa verið í frystikistunni hjá Arsenal. AP/Joan Monfort

Barcelona er heldur betur komið á flug í spænska boltanum og liðið sem gat varla skorað eitt mark í leikjum sínum raðar nú inn mörkum í hverjum leik.

Barcelona vann 4-0 stórsigur á Athletic Bilbao í spænsku deildinni um helgina og hafði áður unnið 4-2 sigur á Napoli í Evrópudeildinni og 4-1 sigur á Valencia í spænsku deildinni. Tólf mörk í þremur leikjum á einni viku og útlitið er nú mun bjartara þegar Xavi tók við liðinu.

Xavi hefur þegar gerbreytt hlutnum og aðallega andanum í kringum liðið en auðvitað hjálpaði það mikið að geta styrkt sóknarlínu liðsins í glugganum.

Pierre-Emerick Aubameyang kom frá Arsenal, Ferran Torres kom frá Manchester City og Adama Traoré kom frá Úlfunum.

Aubameyang var út í kuldanum hjá Arsenal en hann hefur fengið endurnýjum lífsdaga sína í framlínu Barcelona.

Aubameyang skoraði enn á ný í leiknum í gær og er þar með kominn með fimm mörk í síðustu þremur leikjum sínum.

Það var líka greinilega skynsamlegt að halda öðrum vandamálapésa sem var Frakkinn Ousmane Dembélé. Dembélé var orðaður við lið eins og Paris Saint Germain en fór ekki neitt þrátt fyrir mjög erfiða tíma hjá honum á Nývangi.

Xavi hefur talað vel um Dembélé síðan hann tók við og Dembélé átti síðan frábæra innkomu í gær.

Dembélé kom inn á völlinn á 67. mínútu í stöðunni 1-0. Hann skoraði annað mark Börsunga sex mínútum síðar og lagði síðan upp mörk fyrir þá Luuk de Jong og Memphis Depay í lok leiksins.

Hér fyrir neðan má sjá mörkin úr leiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×