Fótbolti

Yfirlýsingar að vænta frá KSÍ

Sindri Sverrisson skrifar
Íslenska karlalandsliðið í fótbolta á að mæta Rússlandi tvisvar á þessu ári í Þjóðadeildinni.
Íslenska karlalandsliðið í fótbolta á að mæta Rússlandi tvisvar á þessu ári í Þjóðadeildinni. vísir/Hulda Margrét

Ný stjórn Knattspyrnusambands Íslands, sem kjörin var um helgina, fundar í fyrsta sinn í hádeginu og þar verður meðal annars rædd afstaða sambandsins til landsleikja við Rússa eftir innrás Rússa í Úkraínu.

Þetta sagði Vanda Sigurgeirsdóttir, sem var endurkjörin formaður KSÍ á laugardag, í samtali við Vísi. Vanda er að jafna sig eftir kórónuveirusmit en fundurinn í hádeginu verður rafrænn.

Íslenska karlalandsliðið á að mæta Rússlandi á útivelli 10. júní í Þjóðadeildinni. Leikurinn átti að vera í Moskvu. Liðin eiga svo að mætast á Laugardalsvelli 24. september. Afstaða KSÍ gagnvart þessum leikjum ætti að skýrast eftir stjórnarfundinn í dag.

Þá hefur KSÍ unnið að því að fá UEFA til að færa leik íslenska kvennalandsliðsins við Hvíta-Rússland, sem leika á í Borisov 12. apríl í undankeppni HM, út fyrir Hvíta-Rússland á hlutlausan völl.

Nokkur knattspyrnusambönd segja ekki koma til greina að spila landsleiki gegn Rússlandi miðað við núverandi stöðu. Þessu hafa enska, pólska, sænska og tékkneska knattspyrnusambandið þegar lýst yfir.

FIFA hefur kynnt fyrstu aðgerðir sínar og þar segir að Rússar muni að óbreyttu þurfa að spila heimaleiki sína á hlutlausum velli, sem sagt utan Rússlands, án áhorfenda. 

Lið Rússa munu þurfa að leika undir nafni knattspyrnusambands Rússlands en ekki sem „Rússland“ og rússneski fáninn verður ekki sýnilegur og rússneski þjóðsöngurinn ekki spilaður. Gagnrýnt hefur verið að FIFA skuli ekki ganga lengra og einfaldlega loka á alla landsleiki Rússa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×