Fótbolti

Skoraði með hendi guðs en þjálfarinn fékk hann til að viðurkenna svindlið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ibrahima Wadji í leik með Qarabag á móti Olympique de Marseille í Baku í gær.
Ibrahima Wadji í leik með Qarabag á móti Olympique de Marseille í Baku í gær. Getty/Resul Rehimov

Hann hélt að hann hefði komist upp með því að skora með hendi guðs eins og Diego Maradona forðum en svo kom inngrip úr óvæntri átt.

Ibrahima Wadji fagnaði marki með Qarabag á móti franska liðinu Marseille í Sambandsdeildinni í gær, marki sem hefði jafnað metin í 1-1.

Wadji fékk hins vegar orð í eyra frá þjálfara sínum sem fékk hann til að fara til dómarans og viðurkenna svindlið.

Pape Gueye hafði komið Frökkunum yfir í leiknum og mark Ibrahima Wadji hefði fært Qarabag smá von.

Það er ekkert VAR í Sambandsdeildinni fyrr en í úrslitaleiknum og því gátu dómarar leiksins ekki gert neitt í þessu þar sem þeir misstu af því að Wadji skoraði með hendinni en ekki með höfðinu.

Leikmenn Marseille voru auðvitað mjög ósáttir og mótmæltu harðlega. Það endaði með að þjálfari Qarabag sannfærði Wadji um að fara til pólska dómarans og segja frá því hvernig hann skoraði þetta mark.

Pólski dómarinn dæmdi markið af og Marseille vann leikinn á endanum 3-0 og þar sem einvígið 6-1 samanlagt.

Gurban Gurbanov, þjálfari Qarabag, hefur fengið hrós fyrir íþróttamennsku sína, og svo gæti alveg farið að hann verið heiðraður á einhvern hátt hjá UEFA. Leikmaðurinn á líka hrós skilið að hafa viðurkennt brot sitt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×