Innlent

„Ég svara ykkur eftir nokkra daga ef ég verð enn á lífi“

Margrét Helga Erlingsdóttir og Kristín Ólafsdóttir skrifa
Oksana hefur gríðarlegar áhyggjur af fjölskyldunni sem býr úti í Úkraínu. Systir hennar segir skelfingu og neyð einkenna lífið í Úkraínu í dag.
Oksana hefur gríðarlegar áhyggjur af fjölskyldunni sem býr úti í Úkraínu. Systir hennar segir skelfingu og neyð einkenna lífið í Úkraínu í dag. Vísir/Egill

Þessi orð mælti faðir Oksönu Shabatura þegar hún bað hann um að leggja mat á ástandið og spá fyrir um framhaldið í Úkraínu. Þau eru til marks um þá óvissu og skelfingarástand sem almenningur í Úkraínu býr nú við.

Oksana er úkraínsk en hefur búið á Íslandi í átján ár og starfar í Fellaskóla í Breiðholti. Hún vaknaði felmtri slegin klukkan sex í morgun við fréttir um innrás og sprengingar.

„Þetta er bara hræðilegt. Við vorum öll að vona að þetta væri bara tal til að hræða stjórnmálamenn í Úkraínu. Engan grunaði að það yrði alvöru stríð.“

Það fyrsta sem Oksana gerði var að reyna að ná sambandi við systur sína sem býr úti. Þrátt fyrir stopult símasamband náði systir hennar að segja Oksönu frá þeim raunveruleika sem blasir nú við almenningi í stríðshrjáðri Úkraínu; skelfing og neyðarástand.

Ringulreið og neyðarástand

„Hún bara hágrætur og er í „panic“. Það eru allir í „panic“ í Úkraínu. Fólk reynir að fara eftir leiðbeiningum. Það fer í hraðbanka til að taka út pening en það er ekki hægt, það er allt tómt. Fólk fer á bensínstöðvar til að fylla á bensín en það eru hundrað manna raðir. Fólk kaupir mat fyrir peningaseðla því ekki er hægt að nota kort. Það kaupir kerfi og vatn því það er mikið talað um yfirvofandi vatns-og rafmagnsleysi. Fólk er bara mjög hrætt.“

Oksana hóf vinnudaginn á að opna Krakkafréttir fyrir börnin líkt og hún gjarnan gerir á meðan þau snæða morgunmat. Henni brá þó talsvert við þeirri sjón sem blasti við Oksönu og börnunum á forsíðu RÚV.

„Það fyrsta sem poppar upp eru myndir frá Úkraínu; stríð, fólk í blóði og skriðdrekar. Mér bara brá og börnunum mínum líka.“

Hefur mestar áhyggjur af litla frænda í hernum

Oksana hefur talsverðar áhyggjur af fjölskyldu sinni og vinum úti í Úkraínu. Hún brotnaði niður þegar hún minntist á litla frænda sinn.

Frændi Oksönu býr í Úkraínu og er í hernum. Vísir/Egill

„Ég hef mestar áhyggjur af litla frænda mínum sem er í hernum. Við vitum að ef það verður stríð þá eru hermennirnir þeir sem standa í fremstu víglínu. Þetta er bara átján ára barn.“

Oksana og fjölskylda hennar býr í vestanverðri Úkraínu en hún hafði þess vegna haldið að hennar ástvinir væru tiltölulega óhlutir „en stutt frá heimilinu mínu þá heyrir fólk sprengjur hér og þar.“

https://www.visir.is/k/782acbaf-8505-419b-bfdf-f856f68e2a5d-1645706767133


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×