Innlent

Óskar eftir úr­skurði um lög­mæti að­gerða lög­reglu­stjóra

Árni Sæberg skrifar
Aðalsteinn Kjartansson blaðamaður Stundarinnar er einn þeirra fjögurra blaðamanna sem boðaður hefur verið til yfirheyrslu hjá lögreglu vegna málsins.
Aðalsteinn Kjartansson blaðamaður Stundarinnar er einn þeirra fjögurra blaðamanna sem boðaður hefur verið til yfirheyrslu hjá lögreglu vegna málsins. Vísir/Egill

Lögmaður Aðalsteins Kjartanssonar, blaðamanns á Stundinni og eins þeirra sem lögreglustjórinn á Norðurlandi hefur veitt réttarstöðu sakbornings vegna umfjöllunar um „skæruliðadeild“ Samherja, hefur afhent Héraðsdómi Norðurlands eystra kæru þar sem farið er fram á úrskurð um lögmæti aðgerða lögreglustjórans.

Lögreglan á Norðurlandi eystra hefur verið harðlega gagnrýnd síðustu daga fyrir að boða fjóra blaðamenn til yfirheyrslu í tengslum við fréttaumfjöllun um svokallaða „skæruliðadeild“ Samherja.

Einn þeirra, Aðalsteinn Kjartansson, tilkynnti í dag að lögmaður hans hefði afhent Héraðsdómi Norðurlands eystra kæru þar sem farið er fram á að skorið sé úr um hvort aðgerðir lögreglu hafi verið lögmætar. Ítarlega útskýringu á ástæðu þess að hann láti reyna á lögmætið má lesa á vef Stundarinnar.

Málið má rekja til umfjöllunar Aðalsteins og fleiri um svokallaða „skæruliðadeild“ Samherja. Farið var yfir málið hér á Vísi á dögunum.

Eins og fram hefur komið hefur Páley Borgþórsdóttir, lögreglustjóri á Norðurlandi eystra, boðað fjóra blaðamenn til yfirheyrslu. Þeir hafa stöðu sakbornings í því máli sem til rannsóknar er.

Aðalsteinn segir í pistli sínum á Stundinni að hann hafi verið boðaður í skýrslutöku á þeim grundvelli að hann væri grunaður um að hafa brotið gegn ákvæðum hegningarlaganna sem fjalla um friðhelgi einkalífs.

Hann segir eðlilegt að lögregla rannsaki glæpi og að þeir sem telja á sér hafa verið brotið leiti réttar sinns. Með kröfugerð sinni geri hann enga kröfu um að lögregla víki frá lögum um störf sín. „Þvert á móti hef ég, eins og aðrir blaðamenn, haldið þeirri sjálfsögðu og eðlilegu kröfu á lofti að farið verði að lögum,“ segir hann.

Hann fer nokkuð ítarlega yfir þær reglur sem gilda um kröfur og skyldur sem settar eru á blaðamenn. 

Óumdeilt að málið varði almannahagsmuni

„Ég brýt til dæmis lög með því að gefa upplýsingar sem gætu varpað ljósi á heimildarmenn sem treysta mér fyrir mikilvægum gögnum eða upplýsingum. Alveg sama hvort það kunni að vera uppi aðstæður þar sem það væri þægilegra fyrir mig persónulega að svara spurningum, af eða á, varðandi heimildir eða gögn,“ segir Aðalsteinn.

Þá fer hann yfir ákvæði almennra hegningarlaga um friðhelgi einkalífs. Í þeim segir að það varði fangelsisrefsingu að brjóta gegn friðhelgi einkalífs fólks með því að afla sér gagna og upplýsinga og segja frá þeim, varði það ekki almannahagsmuni.

„Þegar kemur að umfjöllun um „skæruliðadeild“ Samherja leikur enginn vafi á að upplýsingarnar vörðuðu almannahagsmuni. Það hefur enginn dregið erindið í efa,“ segir Aðalsteinn.

Ríkið ítrekað brotið eigin lög

Aðalsteinn segir íslenska ríkið ítrekað hafa brotið eigin lög gagnvart blaðamönnum, líkt og Mannréttindadómstóll Evrópu hefur staðfest. Dómstóllinn hafi reyndar oft þurft að skera úr um aðgerðir ríkja gagnvart blaðamönnum.

„Hann hefur til að mynda slegið á fingur ríkja sem setja blaðamenn á sakamannabekk fyrir að vinna vinnuna sína. Bara sú aðgerð, þó ekki fylgi ákæra og dómur, er sögð af dómnum hafa áhrif á rétt almennings til upplýsinga,“ segir hann.

Hefur ekkert með hans persónu að gera

Aðalsteinn segist vilja fá úr því skorið hvort aðgerðir lögreglunnar á Norðurlandi eystra standist landslög sem og Mannréttindasáttmála Evrópu, enda vilji hann að farið sé að lögum og ekki sé vikið frá þeim.

Því hafi lögmaður hans lagt inn kæru, í samræmi við lög um meðferð sakamála, þar sem þess er að krafist að skorið verði úr um lögmæti aðgerðanna.

„Sú afstaða hefur ekkert með mína persónu að gera eða að ég telji mig ekki þurfa að fara eftir lögum. Þvert á móti vil ég tryggja að farið sé eftir lögum og fá úr því skorið hvort aðgerðir lögreglustjórans á Norðurlandi eystra standist þau,“ segir Aðalsteinn Kjartansson að lokum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×