Fótbolti

Enginn klúðrað fleiri vítum í Meistaradeildinni en Messi

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Lionel Messi svekktur eftir að hafa brugðist bogalistin af vítapunktinum í leik Paris Saint-Germain og Real Madrid.
Lionel Messi svekktur eftir að hafa brugðist bogalistin af vítapunktinum í leik Paris Saint-Germain og Real Madrid. getty/Shaun Botterill

Lionel Messi bætti enn einu metinu á ferilskrána í leik Paris Saint-Germain og Real Madrid í Meistaradeild Evrópu í gær. Hann er þó eflaust ekki ýkja stoltur af því.

PSG fékk vítaspyrnu eftir rúman klukkutíma í leiknum á Parc des Princes þegar Dani Carvajal braut á Kylian Mbappé. Messi fór á punktinn en Thibaut Courtois varði spyrnu hans.

Þetta var fimmta vítaspyrnan sem Messi klúðrar í Meistaradeildinni. Hann jafnaði þar með met fyrrverandi samherja síns hjá Barcelona, Thierrys Henry. Messi hefur tekið 23 víti í Meistaradeildinni og skorað úr átján þeirra. Fjórar spyrnur hans hafa verið varðar og ein fór í stöngina.

Þrátt fyrir að vera einn besti, ef ekki besti, fótboltamaður allra tíma hefur Messi stundum átt í erfiðleikum með að skora af vítapunktinum. Hann hefur til að mynda klúðrað fjórtán af 74 vítum sínum í spænsku deildinni og sex af níu vítum sínum í spænsku bikarkeppninni.

Vítaklúðurs Argentínumannsins kom þó ekki að sök fyrir PSG í gær. Liðið vann 1-0 sigur, þökk sé marki Mbappés í uppbótartíma. Seinni leikur PSG og Real Madrid fer fram á Spáni 9. mars næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×