Fótbolti

Mátar Heimi við félagið sem rak Blanc

Sindri Sverrisson skrifar
Heimir Hallgrímsson tók við Al Arabi í Katar eftir að hann ákvað að hætta sem landsliðsþjálfari Íslands að loknum HM 2018 í Rússlandi. Hann hætti með Al Arabi í fyrra.
Heimir Hallgrímsson tók við Al Arabi í Katar eftir að hann ákvað að hætta sem landsliðsþjálfari Íslands að loknum HM 2018 í Rússlandi. Hann hætti með Al Arabi í fyrra. Getty

Heimir Hallgrímsson, fyrrverandi landsliðsþjálfari í fótbolta, mun hafa áhuga á að snúa aftur í katörsku úrvalsdeildina og nú gæti verið laust starf sem hentar honum.

Þetta segir fjölmiðlamaðurinn Mitch Freeley sem starfar fyrir beIN Sports og er sérfræðingur um katarska boltann.

Heimir hefur verið án þjálfarastarfs síðan að hann hætti sem þjálfari Al Arabi í fyrravor. Hann hafði þá starfað í Katar í tvö og hálft ár, en Al Arabi var liðið sem hann tók við eftir að hafa stýrt Íslandi á HM 2018 og EM 2016.

„Þessi fyrrverandi þjálfari Íslands skilaði góðu verki hjá Arabi og gæti hentað vel fyrir Al Rayyan… bara benda á það,“ skrifar Freeley á Twitter þar sem hann bendir á að Heimir gæti viljað snúa aftur til Katar.

Al Rayyan rak á dögunum Frakkann Laurent Blanc en hefur þó fengið Sílemanninn Nicolás Córdova, þjálfara U23-landsliðs Katar, til að stýra liðinu.

Al Rayyan er í 9. sæti af 12 liðum katörsku úrvalsdeildarinnar. Á meðal leikmanna liðsins eru Kólumbíumaðurinn James Rodriguez og Frakkinn Steven Nzonzi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×